Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, segir mat, fremur en óhagganlegar reglur, ráða för í fyrirhuguðum fjöldabrottvísunum hælisleitenda og flóttafólks héðan af landi. Hún gagnrýnir áform íslenskra stjórnvalda og segir fordæmalausar brottvísanir fram undan stríða gegn kristnum gildum.
„Við viljum fara eftir lögum og reglum en við viljum að reglur séu túlkaðar á mannúðlegan hátt en ekki eins strangt og hægt er,“ segir Agnes biskup.
Agnes segir afleitt að til standi að vísa fólki burt, sem hafi komið sér fyrir hér á landi og skotið rótum.
„Það virðist matskennt hvort fólki sé vísað úr landi eða ekki.“
Agnes segir hælisleitendur hafa leitað mikið til kirkjunnar, ekki síst til alþjóðlegs safnaðar í Breiðholti. Komið hefur fram að stór hluti hælisleitenda verður sendur til Grikklands, þar sem ríkir ófremdar¬ástand.
Agnes telur langflesta presta landsins harma brottvísanirnar.
„Við erum kristnar manneskjur og okkur ber að aðstoða þau sem eru á flótta, okkur ber að vera gestrisin,“ segir Agnes, sem segir afstöðu Íslendinga snúast að nokkru um kristileg gildi.
„Við spyrjum ekki fólk sem stendur fyrir framan okkur og er í vandræðum um hugmyndir þess um tilveruna. Við hjálpum þeim sem eru í vandræðum. Við komum vel fram við manneskjur, sem eru skapaðar af Guði eins og við öll,“ segir Agnes.
Mótmælafundur fer fram á Austur¬velli á laugardag þar sem hælisleitendur hafa sjálfir orðið. Hrina fyrirhugaðra brottvísana í kjölfar Covid er fordæmalaus. Allt að 300 manneskjur verða að óbreyttu fluttar nauðugar burt, þar af er kona sem komin er átta mánuði á leið. Sumir sem hafa fengið boð um brottvísun hafa dvalið hér á landi í þrjú ár. Sema Erla Serdar hjá hjálparsamtökum flóttafólks og hælisleitenda segir:„Þetta er spurning um vilja.“
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur brugðist við gagnrýni með því að verja brottvísanirnar. Hann segir að fólkinu hafi verið ljóst að það væri statt hér ólöglega.