Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmaður Flokks fólksins, birtir nú fyrir skemmstu ræðu á Facebook síðu sinni, en líkt og Fréttablaðið hefur greint frá sagði Ólafur í dag að sér og Karli Gauta Hjaltasyni hefði verið meinað að vera á mælendaskrá af Steingrími J. Sigfússyni, á fyrsta þingfundi vetrarins.

„Steingrímur J. sagði nei þótt skrifstofa Alþingis hefði gengið frá málinu við okkur Gauta. Við áttum að fá fimm mínútur. Of mikið að dómi forseta,“ skrifar Ólafur áður en hann birtir innihald ræðunnar. 

Sjá einnig: Segja Steingrím ekki hafa hleypt sér á mælendaskrá

Ræðir kjaramálin og stöðu heimilanna

Í ræðunni segist Ólafur tjá sig fyrir hönd síns og Karls Gauta, sem tveggja utanflokksþingmanna. Þar ræðir hann til dæmis kjaramálin og stöðu heimilanna.

„Á komandi vikum og mánuðum er mikilvægt að vel takist til um kjarasamninga. Þeir mega ekki vera fallnir til að magna upp verðlagsþróun heldur þurfa að leggja grunn að nýrri framfarasókn. Verkalýðshreyfingin leggur áherslu á að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin. 

Frá hruni til 2017 hafa hátt í 10 þúsund fjölskyldur misst heimili sín eftir nauðungarsölur vegna gjaldþrota og sölu til kröfuhafa. Þá er ótalinn sá fjöldi sem rekja má til nauðasamninga, sértækrar skuldaaðlögunar og annarra slíkra þátta.

Engar varnir hafa verið reistar í þágu heimilanna. Að tilstuðlan Hagsmunasamtaka heimilanna hefi ég lagt fram lyklafrumvarp til varnar heimilum. Því er ætlað að verja fjölskyldur fyrir því að vera krafðar um greiðslur af hálfu fjármálastofnana eftir að hafa misst heimili sín.“

Leggur til umfangsmiklar breytingar á verðtryggingu

Þá tjáir Ólafur sig jafnframt um verðtrygginguna og þörfina fyrir hjúkrunarrými aldraðra en hann segir að þurfi raunhæf úrræði til þess að mæta vaxandi þörf fyrir slík hjúkrunarrými.

„Við upphaf þings í haust lagði ég fram frumvarp sem felur í sér umfangsmiklar og víðtækar breytingar á verðtryggingu lána í fjórum þáttum. Fyrst að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. Í öðru lagi að taka út áhrif óbeinna skatta svo þær hækkanir leiði ekki til hækkunar húsnæðislána og þyngri greiðslubyrði. Í þriðja lagi er eitraði kokkteillinn svonefndi tekinn út, það er að verðtryggð jafngreiðslulán megi ekki vera til lengri tíma en 25 ára. 

Í fjórða lagi að vextir á verðtryggðum lánum fari ekki upp fyrir 2% og styðst sú tala við viðurkennd viðmið um aukningu á framleiðni og hagvöxt til langs tíma. Hér hef ég rakið markvissar tillögur um varnir fyrir heimilin.“

Vekur athygli á málum Karls Gauta

Í niðurlagi ræðunnar vekur Ólafur svo athygli á þingmálum Karls Gauta og nefnir þar fyrirspurnir hans um sölu á upprunaábyrgðum raforku og um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi og málefna unga karlkynsins.

„Herra forseti, við óháðir þingmenn utan flokka munum veita ríkisstjórninni aðhald sem fyrr en styðja hana til góðra verka. Við munum standa vörð um fullveldi þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og við munum standa vörð um lífsrétt ófæddra barna með áherslu á félagsleg úrræði fyrir mæður í vanda. Fyrirhuguðu fé í þjóðarsjóð ber að verja til uppbyggingar innviða.“

Lesa má ræðu Ólafs í heild sinni í Facebook færslu hans hér að neðan.