Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, birti nú í kvöld tölvuskeyti sem vísað var til í bókun sem hún ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins lagði fram á fundi borgarráðs í dag. 

Í bókuninni segir að borgarritari, Stefán Eiríksson, hafi haft í hótunum við kjörin fulltrúa þegar hann sendi henni tölvuskeyti þess efnis að hún hafi brotið trúnað þann 10. ágúst síðastliðinn þegar hún birti í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún fjallað um umræðu sem fór fram á fundi borgarráðs þann 31. júlí síðastliðinn.

Í færslu sinni á Facebook í kvöld segir Vigdís að hver geti dæmt um sig hvort um sé að ræða hótunarpóst frá borgarritara.

„Hér er tölvupósturinn frá borgarritara þar sem ég er ranglega sökuð um trúnaðarbrot. Ég lít svo á að hér sé um harðorðan hótunarpóst að ræða frá embættismanni til kjörins fulltrúa. Dæmi hver fyrir sig...!!!“ segir Vigdís.

Færsluna og tölvupóstinn má sjá hér að neðan. Þar segir Stefán Eiríksson, meðal annars, að hann hafi aldrei áður staðið frammi fyrir því að „að borgarfulltrúi hafi brotið trúnað með því að miðla upplýsingum sem veittar voru í trúnaði á fundi borgarráðs. Ég hef heldur ekki staðið frammi fyrir því að borgarfulltrúi hafi rangfært niðurstöður í viðkvæmu dómsmáli og úttalað sig um það opinberlega að tiltekinn starfsmaður Reykjavíkurborgar hafi lagt annan starfsmann í einelti. Þá hef ég heldur ekki staðið frammi fyrir því að borgarfulltrúi hafi miðlað opinberlega viðkvæmum persónuupplýsingum í viðkvæmu starfsmannamáli í starfi mínu hjá Reykjavíkurborg.“ 

Segir hann síðan að afrit af póstinum hafi verið sent til forseta borgarstjórnar, formanns borgarráðs og borgarlögmanns og að þess hafi verið óskað að yfirlýsingar hennar verði skoðaðar nánar út frá lögum og siðareglum og að borgarlögmaður muni fara yfir möguleg viðbrögð og ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna málsins. 

Umrædda færslu sem vísað er til í tölvupósti Stefáns til Vigdísar má sjá hér að neðan. Sú færsla var birt síðasta föstudag, þann 10. ágúst, sama dag og Stefán sendir henni tölvupóst þess efnis að hún hafi brotið trúnað.