„Þessi umræða hefur alla tíð komið upp, sitt sýnist hverjum,“ segir Jón G. Hauksson, fyrrverandi ritstjóri Frjálsrar verslunar, um gagnrýni á opið aðgengi að skattagögnum og umræðu um hvort að slíkar upplýsingar eigi erindi við almenning.

„Þegar við gáfum þetta út hjá Frjálsri verslun litum við á þetta sem vinnumarkaðsrit. Að þetta væri spurning um aukið gagnsæi. Lögin gera ráð fyrir því. Það hefur verið reynt að hnekkja þessu en það gekk ekki,“ segir hann.

Jón segir að slíkt gagnsæi geti til dæmis komið í veg fyrir gróusögur og frjáls samkeppni geri einnig ráð fyrir því að verð á vinnuafli sé upplýst, og að menn sjái hvaða verð er á vinnuaflinu.

Að sögn Jóns voru það meginrökin fyrir birtingu gagnanna í Frjálsri verslun á sínum tíma og þau rök séu enn í gildi.

Aðspurður um helstu vendingar í tekjuþróun á þeim tíma og hugsanlegar breytingar á þjóðhagslegum bakgrunni skattakónga svarar hann. „Það hefur orðið gífurleg breyting á launum forstjóra en auðvitað eru komnir nýir leikendur fram á sviðið. Hér áður var skattakóngurinn í Reykjavík Þorvaldur Guðmundsson í Síld og fisk, svona svo að dæmi sé tekið,“ segir Jón. „Svo hafa stærstu fyrirtækin og forstjórar þeirra alltaf verið með hæstu launin.“

Jón ítrekar að hér sé um launagreiðslur að ræða. „Það sem verið er að rýna í eru launatekjur en ekki arðgreiðslur eða hagnaður af hlutabréfaviðskiptum.“

Aðspurður hvort tekjur fólks í landinu séu að hækka svarar hann játandi.

„Þær hafa verið að hækka undanfarið. Launavísitalan hefur verið að hækka og það hefur verið launaskrið og sumir hafa talað um að ríkið fari á undan í launaskriði.“