Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins um að hafna afhendingu samninga íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum við Covid-19 af lyfjafyrirtækjunum Pfizer, Janssen, AstraZeneca, Moderna og CureVac. Almennur borgari óskaði eftir samningunum.

Ráðuneytið lagðist gegn afhendingu samninganna á grundvelli þess að hætta væri á tjóni, þá fælu þeir í sér samskipti við erlend ríki þar sem Svíþjóð eigi aðild að samningunum.

Í úrskurðinum segir að ef Ísland birti samningana muni það skerða traust á milli íslenska ríkisins og þess sænska.

Þá „verði ekki fram hjá því litið að íslenska ríkinu mun líklega reynast nauðsynlegt að festa kaup á fleiri bóluefnaskömmtum gegn COVID-19,“ segir í úrskurðinum.

Verði samningarnir birtir gætu lyfjafyrirtækin borið fyrir sig vanefndir af hálfu Íslands. Þannig gæti afhending raskast og samningsstaða Íslands breyst til hins verra.