Enn er spurningum ósvarað um skotárásina í Field's-verslunarmiðstöðinni í Kaupmannahöfn í gær. Vitað er að árásarmaðurinn var 22 ára Dani sem hefur átt við geðræn vandamál að stríða en óvíst er hvað honum gekk til eða hvar hann fékk byssuna sem hann notaði til voðaverksins. Lögreglan segist telja að árásarmaðurinn hafi skotið á fólk af handahófi.

Lögreglan hefur útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Þrír eru látnir vegna árásarinnar, fjórir eru alvarlega særðir auk þess sem 23 manns slösuðust. Lögreglan í Kaupmannahöfn upplýsti í morgun að hin látnu væru sautján ára drengur, sautján ára stúlka og 47 ára karlmaður sem er rússneskur ríkisborgari en búsettur í Danmörku. Yfirheyrslur yfir árásarmanninum hefjast í dag.

Stuttu eftir að árásin hófst í gær var hafið að deila myndböndum með manni sem var sagður vera árásarmaðurinn á netinu. Í myndböndunum sést hann munda byssur og beina þeim að höfði sér, auk þess sem hann sést stinga byssuhlaupinu upp í munninn. Myndböndin hafa síðan verið fjarlægð en á fjölmiðlafundi í morgun staðfesti rannsóknarlögreglumaðurinn Søren Thomassen að árásarmaðurinn væri sá sem birtist í nokkrum þeirra.

Thomassen staðfesti jafnframt á fundinum að lögreglan hafi þekkt til árásarmannsins, en aðeins lítillega. Ekki er ljóst hvernig maðurinn hefur komið til sögu lögreglunnar.

Öllum myndböndunum hafði verið hlaðið upp á YouTube á laugardaginn með titlinum I don‘t care (ísl. „Mér er sama“). Í lýsingu myndbandanna stóð Quetiapin doesn‘t work (ísl. „Quetíapín virkar ekki“). Quetíapín er lyf sem notað er til að meðhöndla geðklofa, geðhvarfasýki og alvarlegt þunglyndi. Áður hafði árásarmaðurinn hlaðið upp spilunarlistum með titlunum Feeling sad (ísl. „Líður illa“), Killer music (ísl. „Drápstónlist“) og Last thing to listen to (ísl. „Það síðasta til að hlusta á“).