Samtökin No Borders birtu í dag mynd af vottorði albönsku konunnar sem vísað var úr landi í morgun. Vottorðið birtu þau í kjölfar þess að Útlendingastofnun sagði í tilkynningu að vottorð lækna hafi ekki sýnt fram á að brottvísun konu sem gengin er átta mánuði á leið myndi stefna öryggi hennar í hættu.

Eins og má sjá hér að neðan, á mynd af vottorðinu, segir þar að konan sé slæm af verkjum og að hún ætti erfitt með langt flug.

„Það vottast hér með að [] er ófrísk og gengin skv. síðustu tíðum 35 vikur og 5 daga. Hún er slæm af stoðkerfisverkjum í baki og ætti erfitt með langt flug.“

Vottorð konunnar.
Mynd/No Borders

Þrátt fyrir það mat stoðdeild lögreglunnar það svo að öryggi hennar yrði ekki stefnt í hættu með brottvísun og var því flutningum haldið áfram.

Hér að neðan má sjá myndir frá nóttinni sem No Borders birtu í dag. Þar má sjá son konunnar í bið, lögregluna fjarlægja eigum fólksins og fólkið á leið í nauðuga brottvísun.

„Dæmi hver fyrir sig.
Leyfum UTL að ljúga sig út í horn,“ segir í færslu No Borders.