Forseti Bandaríkjanna hefur beðið íbúa í Tennessee í Memphis um að halda aðeins friðsamleg mótmæli í kjölfar þess að yfirvöld birta í kvöld myndband af ofbeldi lögreglunnar í Memphis í Tennessee við handtöku Tyre Nichols fyrr í mánuðinum. Myndbandið er í heild um klukkustund og er úr líkamsmyndavélum lögreglumannanna sem komu að handtökunni.
Fimm lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir manndráp, stórfellda líkamsárás, mannrán og fyrir brot í starfi. Nichols lést á spítala þremur dögum eftir að ráðist var á hann þann 11. janúar á þessu ári.
Nichols, sem er dökkur á hörund, var á leið heim og var að taka mynd af sólsetrinu þann 7. Janúar þegar fimm lögreglumenn, sem allir einnig eru dökkir á hörund, stöðvuðu hann við umferðareftirlit. Hann reyndi í fyrstu að flýja af vettvangi en svo þegar lögregla reyndi að handtaka hann urðu átök þeirra á milli. Hann var í kjölfarið fluttur á spítala eftir að hann hafði kvartað undan því að ná ekki andanum

Mikið er fjallað um málið í erlendum miðlum í dag en bæði lögreglan í Memphis og forseti Bandaríkjanna eru uggandi yfir viðbrögðum almennings við myndbandinu sem er sagt vera mjög ógeðslegt. Víða um ríkið og Bandaríkin hafa verið skipulögð mótmæli vegna myndbandsins sem birt verður í kvöld. Viðbúnaður lögreglu hefur verið aukinn vegna mótmæla og viðbragða almennings við upptökunni.
Lögmenn fjölskyldu Nichols hafa greint frá því að í myndbandinu, sem er upptaka úr líkamsmyndavél lögreglumanna, sjáist hvernig hann var spreyjaður með piparúða, stunginn með rafbyssu, bundinn niður og svo sparkað í hann og líkti ofbeldinu við lögregluofbeldið sem Rodney King mátti þola fyrir 30 árum. Ofbeldið gegn honum er sagt hafa varað í að minnsta kosti þrjár mínútur.
„Mér er óglatt yfir því sem ég sá,“ sagði David Rausch yfirmaður rannsóknarlögreglu í Tennessee í gær eftir að hann horfði á myndbandið og lýsti hegðun og gjörðum lögreglumannanna fimm sem „gjörsamlega ógeðfelldum“.
Lögreglumennirnir Tadarrius Bean, Demetrius Haley, Desmond Mills Jr, Emmitt Martin III og Justin Smith voru allir ráðnir í lögregluna á síðustu sex árin en voru reknir í síðustu viku og færðir í fangelsi í gær. Lögmaður tveggja þeirra segir þá ætla að verjast ásökunum og að enginn hafi ætlað þessu að enda með þessum hætti.