Í yfirlýsingu Einars Hermannssonar, fyrrverandi formanns SÁÁ, sem hann sendi frá sér í gær kemur fram að hann hafi fyrir nokkrum árum svarað auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu.

Einar segir í yfirlýsingu sinni, hegðun sína ófyrirgefanlega og að hann hafi talið sér ranglega trú um að þau samskipti væru grafin og gleymd.

Stundin hefur nú birt viðtal við konu sem Einar á að hafa keypt vændi af á árunum 2016 til 2018.

Konan, sem kemur ekki fram undir nafni, segir frá samskiptum sínum við Einar ásamt því að birta hluta af samtölum þeirra í gegnum samskiptaforrit. Samkvæmt gögnunum virðast samskipti Einars við konuna vera mun umfangsmeiri en yfirlýsing hans gefur til kynna.

Ekkert aðhafst í málinu

Samkvæmt heimildum Stundarinnar var málið tilkynnt til Embættis landlæknis árið 2020, ekki sé ljóst í hvaða farveg málið fór þar innanhúss.

Þá hefur Stundin einnig heimildir fyrir því að einni manneskju í framkvæmdastjórn SÁÁ hafi verið gert viðvart um málið fyrir tæpum tveimur árum, ekkert hafi þó verið aðhafst í málinu.

Það hafi ekki verið fyrr en Stundin fór að spyrjast fyrir um málið fyrir rúmri viku sem málið hafi verið tekið upp og í kjölfarið sagði Einar af sér líkt og fyrr segir.

Ábyrgðamikið starf

Konan, sem Einar keypti vændi af, hafði samband við blaðamann Stundarinnar vegna umfjöllunar þeirra um málefni SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands undanfarna daga og vildi koma með nafnlausa ábendingu um formann SÁÁ,

„því hún fengi ógleði í hvert sinn sem hún sæi hann í fréttum og gréti innra með sér vegna þess að hann gegndi svo ábyrgðamiklu starfi fyrir samtök sem henni þyki mjög vænt um.“

Konan segir í samtali við Stundina aldrei hafa auglýst vændisþjónustu, orðið hafi spurst út. Einar hafi haft samband við hana af fyrra bragði með skilaboðuðum: „Sæl, býður þú upp á heimsóknir $.“  

Að sögn konunnar var hún gríðarlega veik á þessum tíma, í milli fíkniefnaneyslu eftir veikindin. Í örvæntingu sinni hafi hún farið út í vændi, til að fjármagna fíkniefnanotkun sína og matarinnkaup.

Málið fyrnt

Stundin greinir frá því að konan hafi farið í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi fyrir nokkrum árum og sé að eigin sögn á góðum batavegi.

Í kjölfar meðferðarinnar hafi hún ætlað að kæra Einar fyrir vændiskaup, það hafi hins vegar reynst henni of erfitt svo hún bakkaði út, málið sé nú fyrnt.

Samkvæmt skjáskotum sem Stundin birtir má sjá samskipti Einars við konuna þar sem hann óskar eftir kynlífi gegn greiðslu frá henni í þrígang.

Stundin segir birt samskipti ekki þau einu sem þau hafi undir höndum frá konunni.

Hægt er að lesa umfjöllun Stundarinnar í heild sinni hér.