Banda­ríski slúður­miðillinn TMZ birti í gær ó­hugnan­legt mynd­band þar sem sjá má hrotta­fengna árás tveggja manna á að­stoðar­mann Lady Gaga þar sem hann var úti að labba með þrjá hunda hennar.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá var Ryan Fischer úti að ganga með þrjá hunda söng­konunnar í mið­bæ Los Angeles í fyrra kvöld þegar mennirnir keyrðu upp að honum. Þeir réðust að honum og skutu hann fjórum sinnum.

Þá tóku mennirnir með sér tvo af þremur hundum Lady Gaga. Mynd­bandið sem TMZ birtir er ó­hugnan­legt og má heyra í öskrum Fischer þegar mennirnir ráðast skyndi­lega að honum. Þá má sjá að mennirnir eiga í á­tökum í skamma stund áður en einn þeirra dregur upp byssu og skýtur Fischer í bringuna fjórum sinnum.

Að því er fram hefur komið í frétta­flutningi er­lendra miðla af málinu er Fischer ekki í lífs­hættu eftir á­rásina. Hann var sagður með með­vitund þegar lög­reglu­menn mættu á vett­vang. Lady Gaga hefur heitið hálfri milljón Banda­ríkja­dollurum í laun fyrir þann sem getur skilað henni hundum hennar.