Svissnesku dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation birtu myndband í síðustu viku sem sýnir blóðtöku á fylfullum hryssum á sveitabæ á Íslandi.

Matvælastofnun segir verklagið sem sýnt er í myndbrotinu stríði gegn starfsskilyrðum starfseminnar sem eigi að tryggja velferð hryssnanna. Málið er til rannsóknar hjá MAST sem lítur málið alvarlegum augum.

Í myndbandinu má sjá tvo íslenska karlmenn elta kvikmyndagerðafólkið sem var á Íslandi á vegum dýraverndarsamtakanna og sýna þeim ógnandi hegðun. Annar þeirra segist vera fulltrúi frá Ísteka og biður þá um að birta ekki myndefnið. Hinn, Baldur Eiðsson hrossaræktandi, ekur í hliðina á bíl kvikmyndagerðafólksins og segir þeim að fara aftur til síns heima. Hann eltir dýraverndarsinnanna ákveðinn spöl þar til þeir neyðast til að hringja í lögregluna.

Fréttablaðið hafði samband við dýraverndarsamtökin sem segjast hafa rannsakað blóðmerahald á Íslandi í tvö ár. Neðst í fréttinni má finna 20 mínútna myndband sem sýnir hvernig blóðtaka fer fram á sveitabæ á Íslandi.

Fulltrúi frá Ísteka og bóndinn Baldur Eiðsson stöðva dýraverndarsinnanna.
Mynd: Skjáskot

Hvað er blóðmerahald?

Margir bændur eru með blóðmerhald á Íslandi en fyrirtækið Ísteka framleiðir frjósemislyf úr blóðinu fyrir svína- og nautgriparækt. Dýralæknir á vegum Ísteka á ávallt að annast blóðtökuna.

Alls hafa 92 starfsstöðvar tilkynnt um starfsemi með blóðtökuhryssur til Matvælastofnunar en Ísteka hefur leyfi stofnunarinnar til að taka blóð úr fylfullum hryssum til vinnslu afurða. Matvælastofnun hefur eftirlit með fóðrun og aðbúnaði blóðtökuhryssna Ísteka ber ábyrgð á sérstöku eftirliti með blóðtökunni sjálfri.

Starfsemin sem um ræðir snýst um að nýta efnið PMSG(e.Pregnant Mare Serum Gonadotropin), sem finnst í blóði fylfullra hryssna, sem hægt er að nota til að örva þroska eggbúa í öðrum dýrategundum en hrossum, einkum í svínarækt.

Ætla má að verðmæti hryssublóðs sé umtalsvert en það fæst ekki gefið upp vegna viðskiptahagsmuna. Hrossabændur geta þrefaldað tekjur sínar með því að selja blóð fylfullra mera til framleiðslu á frjósemislyfjum samkvæmt Arnþóri Guðlaugssyni í grein Morgunblaðsins frá árinu 2015.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið í heild sinni.