Maðurinn sem er í haldi lög­reglunnar í Noregi eftir að hafa orðið fimm manns að bana í bænum Kongs­berg í gær­kvöldi heitir Espen Ander­son Bråthen og er 37 ára danskur ríkis­borgari.

Norskir fjöl­miðlar sögðu frá þessu í há­deginu.

Espen varð fjórum konum og einum karli að bana og segir lög­regla að allt út­lit sé fyrir að um hryðju­verka­á­rás hafi verið að ræða.

Í frétt VG kemur fram að vinur hans hafi varað við honum árið 2017 í kjöl­far mynd­banda sem hann birti á sam­fé­lags­miðlum. Í þeim sagðist hann meðal annars hafa snúist til íslams­trúar og gaf hann til kynna að hann gæti framið of­beldis­verk.

VG segir að æsku­vinur Espens hafi til­kynnt hann til lög­reglunnar í gegnum tölvu­póst. Sagði hann í skila­boðum sínum að Espen væri fær um að fremja ein­hvers konar voða­verk. Lýsti hann því að Espen hefði verið eins og tifandi tíma­sprengja og telur að hann hafi þjáðst af geð­rænum kvillum um margra ára skeið.

Í um­fjölluninni kemur fram að blaða­menn VG hafi séð um­rædd skila­boð og þar komi á­hyggjur vinarins skýrt fram. Sagðist hann vonast til þess að lög­regla tæki mark á orðum hans. „Efni þessara mynd­banda er ekki ó­lög­legt en við­vörunar­bjöllurnar ættu að hringja,“ sagði hann einnig. Lög­regla svaraði tölvu­skeytinu á þann veg að haft yrði sam­band ef þörf væri á frekari upp­lýsingum.

Norskir fjöl­miðlar greindu frá því í morgun að Espen væri marg­dæmdur fyrir ýmis brot, þar á meðal inn­brot og vímu­efna­brot. Hann var úr­skurðaður í sex mánaða nálgunar­bann í fyrra eftir að hafa hótað tveimur ættingjum sínum líf­láti. Í úr­skurðinum kom fram að lög­regla hefði á­hyggjur af því að hann myndi brjóta gegn ættingjum sínum.