Brotist var inn í vallarhúsið við Rafholtsvöll í Njarðvík og talsverðu magni af raftækjum stolið ásamt því að skemmdir voru unnar á húsnæðinu.

Lögreglan á Suðurnesjum er nú með málið til rannsóknar og óskar eftir aðstoð við að bera kennsl á þá aðila sem bera ábyrgð á verknaðinum.

Knattspyrnudeild Njarðvíkur deildi í kvöld myndbandi úr öryggismyndavél þar sem þrír aðilar sjást brjóta sér leið inn í vallarhúsið með því að sparka upp hurð.

Myndbandinu var sömuleiðis deilt á Facebook-síðu lögregluembættisins sem hvetur fólk til að athuga hvort það kannist við umrædda aðila. Eru þeir sem þekkja til beðnir um að hafa samband við lögreglu.