Birt hefur verið mynd­band af manninum sem réðst á fólk með boga og myrti fjórar konur og einn karl­mann í Kongs­berg í Noregi. Þar sést hann skjóta örvum um búð sem hann réðst inn í. The Sun birtir mynd­bandið.

Réttað er yfir manninum í héraðs­dóm Bust­kerud í Noregi. Hann er á­kærður fyrir mann­dráp á fimm ein­stak­lingum og til­raun til mann­dráps á ellefu öðrum ein­stak­lingum.

Í mynd­bandinu sést hann, klæddur í hvítan hlýra­bol með poka af örvum hangandi á sér.

Maðurinn segist hafa haldið að hann væri að verða blindur og þess vegna á­kvað hann að „fara út og myrða“ á meðan hann sæi. Hann sagðist trúa því að hann myndi endur­fæðast í betri lífi ef hann myrti.

Var undir eftir­liti lög­reglu

Lög­reglan segir hann hafa skipt um trú og snúist til öfga­fullrar íslams­trúar. Hann mun hafa verið undir eftir­liti hennar vegna ótta við öfga­skoðanir hans.

Konan sem sá hann síðast áður en hann gekk ber­serks­gang um bæinn segir hann hafi verið stressaðan þegar hún gekk í burtu frá honum.

Þau höfðu á­kveðið að hittast fyrir framan búð en þegar hún sá manninn bera boga, þó nokkuð af örvum og hnífa, sagði hún að hann gæti ekki farið svona niður í bæ, hún sneri síðan við og gekk í burtu frá honum.

Þegar hún er komin nokkra vega­lengd frá manninum heyrir hún háan smell, snýr sér við og sér hann miða boganum að sér, þá flúði hún í bílinn sinn en hún skýldi sér þar á meðan hann gekk um bæinn.