Það er ekki á hverjum degi sem þjóðkunnur Íslendingur stígur fram og greinir hispurslaust frá heilabilun sinni. En það gerir baráttukonan Birna Þórðardóttir í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld.

Þar segir hún þessa nýju áskorun í lífi sínu vera eins og hvert annað verkefni, en aðalatriði sé að njóta hvers dags – og reyna að gera betur.

Hún segir að heilabilunin í sínu tilviki hafi ekki komið henni á óvart. Móðir hennar, Sigrún Pálsdóttir, skólastjóri á Borgarfirði eystri, hafi glímt við það sama þegar hún var komin á efri ár.

Í þættinum er farið yfir allan æviferil Birnu sem er ævintýri líkastur, en ný bók um lífssögu Birnu er nú komin út í umsjá Ingibjargar Hjartardóttur, rithöfundar. Hægt er að horfa á þáttinn á Hringbraut klukkan sjö í kvöld og aftur klukkan níu og ellefu.

Hér má sjá viðtalsbrotið þar sem Birna talar um veikindi sín.