Sjaldan hafa fleiri holur myndast á vegum landsins en nú í kjöl­farið á þungum vetri víða. Birkir Hrafn Jóa­kims­son, for­stöðu­maður á mann­virkja­sviði Vega­gerðarinnar, segir að vanda­málið sé ekki bundið við Ís­land en við séum þó illa sett eftir veturinn.

Í mynd­bandi sem birtist á vef Vega­gerðarinnar út­skýrir Birkir hvernig holur myndast í vegum. Ljóst er að mikið verk­efni bíður starfs­manna Vega­gerðarinnar að gera við þær holur sem hafa myndast í bundnu slit­lagi víða um land.

„Holur myndast þegar vatn liggur í vegum. Vatn finnur sér alltaf leið. Ef það er til dæmis mjög lítil sprunga í mal­biki kemst vatn þar undir og safnast fyrir. Þegar vatn frýs eykst rúm­mál þess og þegar það þiðnar aftur er mal­bikið upp­spennt. Ef þungur bíll ekur þar yfir og brýtur það niður getur hola myndast mjög hratt,“ segir Birkir í mynd­bandinu.

Holur sem þessar eru ekki sér­ís­lenskt fyrir­bæri og kveðst Birkir hafa fengið fréttir frá kollegum sínum um allan heim. „Hins vegar erum við illa sett núna eftir mjög þungan vetur,“ segir hann.

Í mynd­bandinu hér að neðan er einnig rætt við Ingi­björgu Alberts­dóttur, lög­fræðing hjá Vega­gerðinni. Bendir hún á að ef ekið er ofan í holu sé best að senda inn tjónstil­kynningu með raf­rænum hætti í gegnum heima­síðu Vega­gerðarinnar.

„Hún fer þá í hefð­bundið ferli innan­húss þar sem fram fer mat á því hvort bóta­skylda sé fyrir hendi,“ segir hún.