Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, ætlar ekki að tjá sig við fjölmiðla um félagsfund flokksins í gær. Birgitta hlaut ekki náð fyrir augum samflokksmanna sinna þegar hún sóttist eftir að fá að taka sæti í trúnaðarráði Pírata. Birgitta birti á Facebook síðu sinni í dag ljóðið Ráðið eftir Pál J. Árdal sem hún segir lýsa flokksfundi gærdagsins.

Meirihluti greiddi atkvædi gegn Birgittu

Samkvæmt heimildum blaðsins sauð upp úr á fundinum og vilja sumir Píratar meina að um hreina aftöku hafi verið að ræða en af þeim 68 sem greiddu atkvæði á fundinum greiddu 55 atkvæði gegn Birgittu og 13 með henni. Þá studdi enginn þingmaður Pírata en á staðnum voru meðal annarra Helgi Hrafn Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen og Oktavía Hrund Jónsdóttir.

Mannorðsmorð og svívirðingar

Birgitta skrifaði færslu á Facebook í dag þar sem hún kveðst ekki ætla að fara í nein viðtöl en birtir þess í stað ljóð eftir Pál J. Árdal, sem hún segir lýsandi fyrir það sem fram fór á fundinum. Í ljóðinu er meðal annars talað um svívirðingar, lygar og mannorðsmorð.

Sé ljóðið táknrænt fyrir stöðu Birgittu þá má ætla að fyrrverandi samstarfsmenn hennar hafi svívirt hana af ástæðulausu. Ljóðið dregur upp mynd af saklausum manni sem verður fyrir barðinu af rógburði án nokkrar rökfærslu og endar sem smánaður maður. Færslu Birgittu í heild er að finna hér fyrir neðan.

Birgitta sagði í samtali við Fréttablaðið á dögunum að hún hefði verið tilnefnd nafnlaust í ráðið og tók fram að erfiðlega hafi gengið að manna það síðustu ár. Því hafi hún verið tilbúin til að ljá flokknum krafta sína og aðstoða við að virkja flokksstarfið.

Í kjölfar flokksfundarins í gærkvöldi sagðist Birgitta, í lokuðum hópi Pírata á Facebook, ekki vilja standa í vegi fyrir fólki sem óskaði ekki eftir nærveru hennar. „Ég vil þakka þeim sem veittu mér traust á þessum fundi áðan. Ég ætla að skrá mig úr þessum hóp til að vera ekki fyrir þeim sem vilja mig ekki í Flokkinn. Kær kveðja Grýla.“