Birgitta Jónsdóttir segir í samtali við Fréttablaðið að það sé gríðarlegur léttir að loksins hafi tekist að bera kennsl á jarðneskar leifar föður hennar, Jóns Ólafssonar. Hún segist rosalega þakklát fyrir störf lögreglunnar en segir um að ræða mikinn tilfinningarússíbana.

Líkt og fram hefur komið greindi lögreglan frá því í dag að tekist hefði að bera kennsl á höfuðkúpu Jóns. Jón hvarf á aðfangadag árið 1987 og var talinn hafa fallið í Sogið. Höfuðkúpan fannst svo þann 3. október 1994 en ekki var hægt að bera kennsl á hana fyrr en nú.

„Það er rosalega mikill léttir að fá að loka þessu, grafa hann og einhvern veginn fá fullkomna staðfestingu á því að hann sé í raun og veru dáinn. Þó svo að maður viti það á einhverju leveli, að þá er það ekki alveg raunverulegt þangað til maður fær líkamlega staðfestingu,“ segir Birgitta.

Hún segist rosalega þakklát lög­reglunni og Oddi Árna­syni, yfir­lög­reglu­þjóni á Suður­landi, fyrir að hafa haldið áfram að vinna í málinu eftir allan þennan tíma. „Það er náttúrulega svolítið sjokk að vita það að pabbi hafi bara verið á einhverri hillu í áratugi. En ég er að vonast til þess að með þessu verklagi, ef það koma upp önnur mál, að beinagrindur finnast, að það verði hægt að greina það,“ segir Birgitta.

Hún segir þá sem ekki hafa upplifað mannshvörf ekki geta skilið hve erfitt það sé að fá ekki staðfestingu. Spurð út í næstu skref segir Birgitta að fjölskyldan hafi talað við nánustu ættingjan og í samráði við systkini Jóns að undirbúa kveðjuathöfn.

Lítill stuðningur við fólk sem upplifir mannshvörf

„Þetta er mikill léttir en á sama tíma er það þannig með sorgina að hún kemur og fer í bylgjum. Þannig þetta er smá tilfinningarússíbani,“ segir Birgitta. „Þetta er þriðja mannshvarfið sem ég fer í gegnum. Og þetta er þá síðasta staðfestingin, sem er bara rosa gott, að fá að loka þessu og ljúka þessum kafla og hafa einhvern stað til þess að fara á. Við erum með okkar ritúala í kringum fæðingu og dauða og það er bara rosa gott að fá að gera þennan nauðsynlega ritúal.“

Hún tekur fram að hún sé fyrst og fremst þakklát. „Við systkinin erum bara rosalega þakklát.“ Hún segist vona að séu til fleiri svipuð mál verði þau sett í svipað ferli. „Það eru náttúrulega enn mjög margir á lista yfir horfið fólk á Íslandi og gerist reglulega. Ég finn rosalega mikla hluttekningu með fólki sem er að ganga í gegnum svona. Það er rosalega lítill stuðningur við fólk sem lendir í svona áföllum.

Það er varla hægt að ímynda sér meira áfall en mannshvarf. Það er alveg eitthvað sem mætti laga, stuðninginn við fólk sem lendir í svona málum og stuðningur fyrir aðstandendur sem verða eftir þegar náinn fjölskyldumeðlimur eða vinur fremur sjálfsvíg. Það er allt of lítill stuðningur fyrir slíkt.“