Birgitta Líf Björns­dóttir, eig­andi skemmti­staðarins Banka­stræti Club, segir aðila sem urðu fyrir árás á skemmti­staðnum í gær ekki vera í lífs­hættu en að þeir hafi slasast al­var­lega. Mikill við­búnaður var við staðinn í gær þar sem sér­sveitin var meðal annars kölluð til. Þá voru þrír fluttir á slysadeild.

„Í kvöld mætti stór hópur manna í mið­bæ Reykja­víkur í leit að á­kveðnum aðilum sem þeir fundu inni á Banka­stræti og réðust á. Við­komandi slösuðust al­var­lega og voru fluttir á slysa­deild en eru ekki í lífs­hættu,“ segir Birgitta Líf á Insta­gram.

Sjónar­vottar sögðu í gær að menn, sem huldu höfuð sitt, hafi farið inn á staðinn, síðan flúið hann á hlaupum og komist undan á bíl. Þá telja sjónar­vottar að ein­hverjir hafi verið stungnir.

Sér­sveitar­menn og sjúkra­flutninga­menn fóru inn á staðinn og tæmdu hann af gestum og slökktu á tón­list.

Birgitta Líf segist þakk­lát fyrir við­brögð þeirra sem komu að at­burða­rás á Banka­stræti í gær­kvöldi. „Starfs­fólki, gestum, lög­reglu og sjúkra­flutninga­mönnum.“

„Við hjá Banka­stræti um­berum ekki of­beldi af neinu tagi og leggjum mikið upp úr öryggi gesta okkar og þjálfun starfs­fólks,“ segir Birgitta Líf.

„Þökkum guði að ekki fór verr. Of­beldi á hvergi heima,“ bætir hún svo við.

Skjáskot/Instagram