Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, segir að undirskrift sín vegna framboðs á lista Reykjavíkur; Bestu borgarinnar hafi verið fölsuð.

Frá þessu greinir Birgitta á Facebook-síðu sinni.

Birgitta er í 24. sæti E-listans Reykjavíkur; Bestu borgarinnar og er nú ljóst að hún sóttist ekki eftir því sæti sjálf.

Í færslu Birgittu kemur fram að hún hafi sjálf ekki gefið heimild til þess að hennar nafn yrði sett á listann og mun hún funda með yfirkjörstjörn vegna málsins á morgun um það hvernig bregðast skuli við.

Í samtali við Vísi vildi Gunnar H. Gunnarsson, oddviti E-listans, engu svara um það hvernig undirskrift Birgittu hefði ratað á yfirlýsingu listans. Þá vildi hann ekki heldur svara því hvort málið yrði skoðað innan flokksins eða hvort nýr maður yrði skipaður á listann.

RÚV ræddi við formann yfirkjörstjórnar sem segir það undir Birgittu komið að ákveða um framhaldið. Birgitta sagði í samtali við RÚV að henni hafi brugðið þegar hún sá skjalið með undirskrift sinni rétt fyrir hádegi í dag.

Grunur lék á að um misskilning væri að ræða en sjálf hafði Birgitta tjáð fjölmiðlum að hún hafi ritað undir stuðningsyfirlýsingu við framboðið en nú hefur komið í ljóst að um annað skjal sé að ræða og hefur Birgitta líkt og fyrr segir staðfest á Facebook-síðu sinni að undirskrift hennar hafi verið fölsuð.