Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar, segist sjá eftir að hafa gefið Listasafn Sigurjóns til íslenska ríkisins.

„Ef íslenska ríkið hefur ekki bolmagn til að hlúa sómasamlega að arfleifð Sigurjóns og hugverki mínu er það siðferðileg skylda ríkisins að skila gjöfinni, mínum eigum og heimili,“ segir Birgitta.

Forsaga málsins er að eftir lát Sigurjóns stofnaði Birgitta einkasafnið LSÓ 1984 með aðsetur í vinnustofu hans og heimili þeirra hjóna á Laugarnesi. Húsnæðið var endurgert, safnið opnað almenningi haustið 1988 og gert að sjálfseignarstofnun 1989.

Safnið hefur verið rekið með styrkjum frá ríki og borg og sjálfsaflatekjum en hrunið 2008 lék safnið grátt, að sögn Birgittu. Niðurskurður á fjárframlögum ríkis og borgar leiddi af sér að það vantaði 8 milljónir króna til að brúa bilið milli tekna og árlegra rekstrargjalda. Sjálfseignarstofnunin var lögð niður og menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, veitti í júní 2012 viðtöku skuldlausri eign sem var safn í fullum blóma.

„Með gjafabréfinu fylgdi samkomulag milli Listasafns Íslands og stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar þar sem kveðið var á um að safnið yrði rekið „í anda þeirrar starfsemi sem þar hefur verið rekin“ með rannsóknarvinnu, tónleikahaldi og fjölbreyttri menningarstarfsemi,“ segir Birgitta. Ekki hafi verið staðið við það.

Listasafnið væri í raun ekki til

Á árunum 2012–2015 hafi verið ríflegar fjárveitingar til LSÓ af fjárlögum Alþingis, en þær hafi ekki komið Listasafni Sigurjóns til góða. Samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðunar í mars 2016 fóru 71%, eða 104 milljónir, sem voru eyrnamerktar LSÓ, til rekstrar Listasafns Íslands.

Af þessum ástæðum leitaði Birgitta til lögmannsstofu sem hefur verið með málið síðastliðin þrjú ár. „Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tók vel í ósk mína um að safnið yrði rekið sem sjálfstæð eining með eigin stjórn og eigið fjármagn, í líkingu við Listasafn Einars Jónssonar og Gljúfrastein,“ segir Birgitta.

20211020_BirrgittaSpur_EA_006.jpg

Embættismenn menntamálaráðuneytisins hafi þó ekki getað fallist á þetta.

„Þess í stað bauðst mér og fjölskyldu minni útvistun á rekstri safnsins til fimm ára,“ segir Birgitta. „Síðasta útgáfa útvistunarsamningsins hefur verið i vinnslu hjá ráðuneytum menntamála og fjármála í 16 mánuði og nú er mér sagt að það styttist í að gengið verði frá samningnum og að árlegt fjárframlag verði 19,5 milljónir króna sem ekki verði hækkað á samningstímabilinu, en sú upphæð samsvarar rekstrargjöldum safnsins árið 2011."

Í skýrslu ríkisendurskoðunar 2016 kom fram „að fulltrúi ráðuneytisins kvaðst raunar líta svo á að eftir gjafagerninginn væri ekkert til sem héti Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.“

„Hefði ég vitað um þessa afstöðu ráðuneytisins 2012, hefði ég aldrei gefið hugverk mitt, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar til íslenska ríkisins,“ segir Birgitta.