Hluti yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis situr nú fyrir svörum undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa í lokuðum hátíðarsal Hótel Borgarness.

Fyrir fundinn gengu nefndarmenn með starfsmönnum hótelsins sem sýndu þeim alla innganga og hvar kjörkassar voru geymdir og hvar myndavélar voru staðsettar. Fjölmiðlum var svo vísað út úr salnum og honum lokað.

Aðspurð hvers vegna sögðu nefndarmenn að ástæðan sé vegna þeirra gagna sem koma fram. Allir í yfirkjörstjórn með réttarstöðu sakbornings og fulltrúar Alþingis munu fara meðal annars yfir lögreglugögn á fundinum.

„Við erum hér til að leysa ráðgátu,“ sagði Birgir Ármansson, formaður undirbúningsnefndarinnar, í samtali við Fréttablaðið. Hann staðfestir að nefndin muni fara yfir lögreglugögn og ræða við nokkra gesti í dag en segir nefndina vilja spyrja út í hluti sem lögreglan gerði ekki.

Nefndarmenn skoða hvern krók og kima til að athuga hvort hægt sé að komast inn í salinn þannig að myndavélar sjái ekki til.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

„Já við erum meðal annars að skoða lögreglugögn en erum að fylla inn í púsluspilið. Í dag fáum við tækifæri til að spyrja út í ákveðin mál sem lögreglan hefur kannski ekki skoðað,“ segir Birgir.

Ætlið þið að ræða við alla í yfirkjörstjórn í dag?

„Nei, það komast ekki allir í dag,“ svaraði Birgir og bætti við að Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar, myndi koma seinna í dag. „Það er púsluspil að ná í alla en við munum klára það næstu daga.“

Nefndarmenn kíktu inn í þetta herbergi að skoða efni úr beinni úr öryggismyndavélum á hótelinu.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Rétt tæpur mánuður er liðinn síðan umdeildar myndir birtist úr téðum hátíðarsal en þá hafði tengdadóttir annars hótelstjórans tekið myndir úr salnum af kjörkössum að loknum kosningum.

Myndirnar vöktu upp spyrningar um lögmæti meðferðar kjörgagna og birtust í fréttum í kjölfar þess að Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, lýsti því yfir að hann hygðist kæra endurtalninguna sem fór fram án þess að umboðsmenn allra flokka voru viðstaddir.

Öryggisverðir loka dyrunum að hátíðarsal Hótel Borgarness.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

„Þetta stemmir“

Hluti nefndarinnar mætti snemma í morgun upp á lögreglustöð í Borgarnesi til að fylgjast með talningu ónotaðra kjörseðla og lauk þeirri talningu um hádegi í dag.

„Þetta stemmir,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, í samtali við Fréttablaðið. Samtals voru 24 þúsund atkvæði send í kjördæmið, 13.905 atkvæði voru greidd of 10.095 ónotuð.

Á­stæðan fyrir talningunni var að at­huga hvort mis­ræmi væri á fjöldi notaðra og ó­notaðra seðla til þess að ganga úr skugga um að enginn laumu­seðill hafi endað á röngum stað.

Nefndin skoðar vettvang talningar: Birgir Ármansson formaður undirbúningsnefndar ásamt Þórunni Sveinbjarnadóttur og Jóhanni Friðriki Friðrikssyni.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason