Birgir Þórarinsson, nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að allt frá Klausturmálinu hafi honum ekki liðið vel í Miðflokknum og það hafi verið unnið markvisst gegn því að hann kæmist áfram í flokknum. Hann segir að Erna Bjarnadóttir hafi skipt um skoðun um að fylgja honum ekki í Sjálfstæðisflokkinn en hún hafði áður tjáð honum að hún ætlaði að fylgja honum. Þetta kom fram í viðtali við Birgi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Birgir sagði þar að umræðurnar síðustu daga hafi verið bæði honum og fjölskyldu hans erfiðar, en um helgina var greint var frá því að hann ætlaði að skipta úr Miðflokknum í Sjálfstæðisflokkinn og að Klaustursmálið hafi haft áhrif á þá ákvörðun.
Ég var með hnút í maganum margar vikur
Spurður af hverju hann var ekki löngu búinn að skipta um flokk sagði Birgir að rætur málsins væru í Klaustursmálinu sem að hann hefði gagnrýnt á þeim tíma, bæði flokksfélaga sína og annað sem það snerti.
„Og þá var ég orðinn vandamálið í flokknum, tekinn fyrir á þingflokksfundum. Það voru haldnir sérstakir þingflokksfundir þar sem að ég er eina umræðuefnið og gagnrýndur mjög harkalega fyrir að gagnrýna þá,“ sagði Birgir Þórarinsson og að það hefðu verið tveir svona fundir. Þegar það kom að þriðja fundinum hótaði hann að fara og þá hafi verið hætt við fundinn.
Hann sagði að þess hafi verið krafist af honum að skrifa opinberlega afsökunarbeiðni fyrir að hafa gagnrýnt þá og að andrúmsloftið hafi verið erfitt eftir þetta í flokknum.
„Ég bara viðurkenni það hér að ég var með hnút í maganum margar vikur á eftir, að mæta á þingflokksfundi, því ég var hræddur um að ég yrði bara tekinn í gegn,“ sagði Birgir.
Þótti sárt að það væri unnið gegn honum
Hann sagði að hann hafi vonast eftir því að þessu máli lyki og að það hafi komið fram í aðdraganda kosninganna að það ætti að koma í veg fyrir að hann myndi leiða listann í Suðurkjördæmi og að það hafi verið unnið markvisst að því að koma í veg fyrir að hann kæmist áfram.
„Mér þótti þetta mjög sárt því ég hef lagt mig fram í þinginu að vinna vel,“ sagði Birgir sem segist hafa talað fyrir mörgum málum sem laðaði fólk að flokknum.
Birgir sagði að þegar úrslit kosninganna voru ljós sá hann að ef hann ætlaði að halda áfram yrði hann að vinna með tveim mönnum, öðrum sem hafði markvisst unnið gegn honum, Bergþóri Ólasyni, og svo hinum sem að sýndi honum algert fálæti, sem er formaður flokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Spurður að því hvort að önnur niðurstaða kosninganna hefði breytt einhverju fyrir hann sagði Birgir að það hafi ekkert nýtt fólk komið inn og að hann hafi séð fram á að það myndi ekkert breytast.
„En ég viðurkenni það að tímasetningin er mjög sérstök, það er alveg rétt. En er þá ekki bara heiðarlegra að gera þetta strax,“ sagði Birgir.
Birgir sagði það alrangt að það hafi verið „eitthvað plot“ að fara í Sjálfstæðiflokksinn heldur hafi honum ekki verið líft í flokknum við þessar aðstæður.
Hann sagði að hann hafi byrjað að tala við Sjálfstæðisflokkinn formlega um tveimur vikum eftir kjördag. Hann vildi ekki tala um það hverja hann talaði við fyrst eða við hvaða aðstæður.
Hann sagðist skilja gagnrýni fólks á þessa ákvörðun og sagði að hans vinna núna myndi fara í að vinna sér traust fólks á ný.