Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, segir í samtali við Fréttablaðið að það sé mat nefndarinnar að ýmsir ágallar hafi verið á framkvæmd kosninga og talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum 25. september.
Nefndin skilaði greinargerð sinni í dag eftir 34 fundi og undir hana skrifa allir nefndarmenn, að undanskildum Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata. Birgir segir að það sé Björns Leví að útskýra hvers vegna hann kvittar ekki upp á greinargerðina.
„Það sem hefur verið stærst í starfi nefndarinnar er Norðvesturkjördæmi enda beindust flestar kærurnar að framkvæmd kosninga og talningar þar. Til að súmmera það upp þá er nefndin þeirrar skoðunar að ýmsir ágallar hafi verið á framkvæmdinni. Stærsti ágallinn varðar varðveislu kjörgagna á tímabili þar sem er fundarhlé hjá yfirkjörstjórn að morgni sunnudagsins eftir kjördag“, segir Birgir.
Hann segir að þrátt fyrir að sátt hefði náðst að mestu innan nefndarinnar hafi verið skiptar skoðanir á því hvort ógilda eigi kosninguna í Norðvesturkjördæmi, með þeim afleiðingum sem það hefur.
Þar má segja að skilji leiðir innan nefndarinnar
„Þar má segja að skilji leiðir innan nefndarinnar og miðað við umræður í nefndinni þá er von á að minnsta kosti tveimur tillögum um það hvernig beri að meðhöndla það. Ég á von á því að tillaga komi frá meirihluta í nefndinni um að staðfesta kjörbréf allra þeirra 63 þingmanna sem fengu útgefin kjörbréf af landskjörstjórn 1. október og meta kosninguna þannig gilda. Það byggir á því að það að fram komi ágallar eða annmarkar á framkvæmd leiðir ekki sjálfkrafa til ógildingar. Það þarf að koma fram eitthvað sem gerir það að verkum að það megi ætla að gallinn sem um er að ræða hafi haft áhrif á úrslit kosninganna,“ segir Birgir.
Í 3. málsgrein 120. greinar kosningalaga segir að ef galli á kosningum er þess eðlis að ætla megi að hann hafi áhrif á úrslit þeirra þá geti þingi ógilt kosninguna í því kjördæmi sem um ræðir. „Við teljum að það sé ekkert komið fram sem gefur okkur tilefni til þess að meta það svo að galli og þá einkum varðandi vörslu kjörgagnanna hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Við teljum einfaldlega ekki að það séu lagaskilyrði til ógildingar miðað við málsatvikin.“
Ekki ljóst hve margar tillögur verði lagðar fram
Birgir á von á að í það minnsta tvær tillögur verði lagðar fram nú eftir að nefndin hefur lokið störfum.
„Miðað við umræður í nefndinni á ég von á því að það verði sem sagt ein tillaga um að staðfesta kjörbréf 63 þingmanna, önnur um að meta kosninguna í Norðvesturkjördæmi ógilda og staðfesta þar með ekki kjör þingmanna í Norðvesturkjördæmi og jöfnunarþingmanna, það auðvitað leiðir af ógildingu í Norðvesturkjördæmi að þeirra kjörbréf eru í uppnámi. Svo hefur Björn Leví talað um það að hann eða Píratar muni koma fram með tillögu um að fram fari uppkosning um allt land. Miðað við umræður í nefndinni geri ég ráð fyrir að það komi fram þessar þrjár tillögur. Hvort þær verði fleiri, það er ekki komið á hreint. Það getur verið að það verði þrátt fyrir að það sé búist við að það verði meirihlutaálit eins og ég segi, þá vitum við ekki hvað minnihlutarnir verða margir.“
Næst á dagskrá sé að fulltrúar í kjörbréfanefndi gangi frá endanlegum tillögum til þingsins.
„Á sama tíma hafa allir þingmenn möguleika til að móta sér afstöðu til málsins eða málanna á grundvelli þeirra upplýsinga sem við leggjum fram. Það verður að reyna á það í umræðum og atkvæðagreiðslum á fimmtudaginn hvernig það fer. Það er staðan eins og hún er núna. Að því gefnu að það verði engar óvæntar uppákomur á leiðinni“, segir Birgir að lokum.