Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis, sver af sér meintan gagnaleka og segir gögnin vera hugarburð Karls Th. Birgissonar, ritstjóra Herðubreiðar.

Vefsíðan Herðubreið segir í nýrri frétt að þeim hafi borist í hendur drög að áliti Birgis um kosningarnar í Norðvesturkjördæmi.

Birgir segir í samtali við Fréttablaðið að gögnin sem Herðubreið birtir séu heimasamin og að ekkert sé til í þeim.

„Þetta er bara það sem kallað er á fínu máli falsfréttir, ég ætlaði svo sem ekkert að æsa mig yfir því,“ segir Birgir.

„Þetta er bara það sem er kallað á fínu máli falsfréttir.“

Að sögn Birgis er nefndin enn að ræða saman og hefur hann ekki hafist handa við að gera drög að niðurstöðu málsins. „Hann er bara að skemmta sér með þessu. Ekki byggt á neinu,“ segir Birgir.

Aðspurður hvar nefndin standi segir Birgir nefndina vera fara yfir þau gögn sem eru komin. Fyrir helgi hafi nefndin hafið umræður um matskennda þætti sem snúa að því að meta málavexti og þau lagalegu atriði sem þau þurfi að byggja á.

Næsti fundur nefndarinnar verður á morgun.

Karl segir textann hafa birst skyndilega

Fréttablaðið náði tali af Karli vegna málsins og segist hann ekki hafa haft möguleika til að meta áreiðanleika lekans.

„Nei og ég veit ekki meir. Textinn birtist skyndilega á skjánum hjá mér. En mér þóttu bæði efni og stíll býsna trúverðug,“ segir Karl.

Karl vill ekki segja nákvæmlega til um hvernig hann fékk skjalið í hendur, en aðspurður hvernig skjalið birtist á skjánum hjá honum segir Karl: „Eins og þegar önnur textaskjöl opnast. – Þarna kemur fram að þetta sé mjög stytt útgáfa.“

Karl segist hins vegar ekki geta tjáð sig um hvort honum hafi borist allt skjalið eða einungis stytt útgáfa þess.