„Ég skora hér með á sóknar­nefnd Laugar­nes­kirkju að falla frá þessari á­kvörðun,“ segir Birgir Þórarins­son, guð­fræðingur og þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Í grein sinni gagn­rýni Birgir þá á­kvörðun Laugar­nes­kirkju að af­þakka heim­sóknir frá grunn­skóla­börnum í Laugar­dalnum á komandi að­ventu. Davíð Þór Jóns­son, sóknar­prestur í Laugar­nes­kirkju, sagði í til­kynningu vegna málsins að á­stæðan fyrir þessu væri and­staða og sundrung sem heim­sóknirnar hafa skapað.

Gagn­rýnir Davíð

Í grein sinni vísar Birgir í setningu á heima­síðu Laugar­nes­kirkju þar sem segir að hún sé lifandi kirkja í Laugar­nes­hverfi.

„Hætt er hins vegar við því að Laugar­nes­kirkja verði ekki eins lifandi á komandi að­ventu og verið hefur. Á­stæðan er á­kvörðun kirkjunnar um að af­þakka heim­sóknir grunn­skóla­barna á þeim tíma sem flestir horfa til kirkjunnar í að­draganda jóla­há­tíðar. Undir til­kynningu þess efnis frá kirkjunni ritar sóknar­presturinn, sá hinn sami og vék ó­mak­lega að for­sætis­ráð­herra á vor­mánuðum og dæmdi heilan stjórn­mála­flokk til hel­vítis­vistar.“

„Ég leyfi mér að full­yrða að mikill minni­hluti for­eldra er and­stæður kirkju­heim­sóknum grunn­skóla­barna á að­ventu.“

Hafi þver­öfug á­hrif

Birgir segir að Davíð virðist mikið í mun að hans verði minnst í sögu­bókum.

„Honum mun væntan­lega verða að ósk sinni þar sem þess þekkjast ekki dæmi í kirkju­sögunni að heim­sóknir grunn­skóla­barna í kirkjuna séu af­þakkaðar,“ segir Birgir og vísar í orð Davíðs Þórs í um­ræddri til­kynningu að ósk kirkjunnar sé sú að um hennar góða starf ríki sátt og friður.

„Ég fæ ekki betur séð af við­brögðum á sam­fé­lags­miðlum en á­kvörðunin hafi haft þver­öfug á­hrif, prestinum hafi tekist að kveikja nýtt ó­friðar­bál í kringum kirkjuna með þessari van­hugsuðu á­kvörðun. Í um­ræðunni sá ég meðal annars vanga­veltur um hvað yrði næst og eðli­legt er að spurt sé. Ís­land er kristið land og kristni hefur mótað það sam­fé­lag sem við búum í. Saga landsins og kristni eru að mörgu leyti sam­ofin. Tengslin eru menningar­leg, sögu­leg og fé­lags­leg. Þjóð­kirkjan nýtur verndar sam­kvæmt stjórnar­skrá og ríkis­valdið á að styðja hana og styrkja. For­sætis­ráð­herra hefur sýnt það í verki og fyrir það ber að þakka.“

Vill að kirkjan falli frá á­kvörðuninni

Birgir endar grein sína á þeim orðum að kirkjan megi ekki bregðast hlut­verki sínu „þótt hún mæti and­stöðu lítils hóps“ eins og hann orðar það. Skorar hann á sóknar­nefnd kirkjunnar að falla frá þessari á­kvörðun og standa vörð um kristna trú.

„Standa vörð um að­ventuna og mikil­vægt hlut­verk barna í henni. Ég leyfi mér að full­yrða að mikill minni­hluti for­eldra er and­stæður kirkju­heim­sóknum grunn­skóla­barna á að­ventu. Það á ekki að bitna á meiri­hlutanum. Lifandi kirkja býður grunn­skóla­börn vel­komin í kirkjuna á að­ventu.“