Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, varð í dag áttundi þingmaðurinn sem greindist í hópsmiti á Alþingi og annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fyrir hafði þingflokkur Viðreisnar greinst auk eins þingmanns Samfylkingarinnar, Oddnýjar Harðardóttur.
„Ég hef það bærilegt og er með væg flensueinkenni þannig ég er ekki einkennalaus, en þetta er ekki alvarlegt,“ segir Birgir sem fékk niðurstöðuna rétt fyrir þingfund í dag.
Hann segir að þingmenn hafi verið duglegir að fara í próf síðan smitin komu upp um helgina en að í dag hafi verið átak að drífa fólk í bæði hraðpróf og PCR-próf og að hann hafi fengið þau bæði jákvæð.
Birgir segir að tveir síðustu vinnudagar á þingi hafi verið nefndardagar og því hafi allir fundir verið í fjarfundi utan þess sem að það var fjögurra mínútna þingfundur þar sem varaþingmenn Viðreisnar undirrituðu drengskaparheit sín.
„Annars hef ég ekkert verið í beinum samskiptum við aðra þingmenn síðan á fimmtudag. Mælikvarðinn er að vera í einhverjum samvistum í að minnsta kosti korter og fundurinn var fjórar mínútur þannig það hefur verið innan marka.“
Birgir segir að hann hafi ekki frétt af öðrum jákvæðum niðurstöðum hjá þeim þingmönnum sem fóru í próf í dag og að fjölskyldan hans hafi öll drifið sig í test líka og bíða nú eftir því að fá niðurstöðu úr því. Á meðan þau bíða er Birgir í einangrun í kjallaranum á heimili sínu.
„Nánasta fjölskylda er í sóttkví næstu heima. Ég er í kjallaranum hérna heima. Ég hef aðstöðu en það er spurning hvað maður gerir þegar horft er til lengri tíma og maður gerir það í samráði við sérfræðingana.“
Spurður hver tekur við af honum sem forseti Alþingis segir Birgir að það séu sex varaforsetar. Fyrsti varaforseti er einnig í einangrun með Covid, Oddný G. Harðardóttir, en annar varaforseti er Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.