Birgir Ár­manns­son, for­seti Al­þingis, varð í dag áttundi þing­maðurinn sem greindist í hóp­smiti á Al­þingi og annar þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins. Fyrir hafði þing­flokkur Við­reisnar greinst auk eins þing­manns Sam­fylkingarinnar, Odd­nýjar Harðar­dóttur.

„Ég hef það bæri­legt og er með væg flensu­ein­kenni þannig ég er ekki ein­kenna­laus, en þetta er ekki al­var­legt,“ segir Birgir sem fékk niður­stöðuna rétt fyrir þing­fund í dag.

Hann segir að þing­menn hafi verið dug­legir að fara í próf síðan smitin komu upp um helgina en að í dag hafi verið átak að drífa fólk í bæði hrað­próf og PCR-próf og að hann hafi fengið þau bæði já­kvæð.

Birgir segir að tveir síðustu vinnu­dagar á þingi hafi verið nefndar­dagar og því hafi allir fundir verið í fjar­fundi utan þess sem að það var fjögurra mínútna þing­fundur þar sem vara­þing­menn Við­reisnar undir­rituðu dreng­skapar­heit sín.

„Annars hef ég ekkert verið í beinum sam­skiptum við aðra þing­menn síðan á fimmtu­dag. Mæli­kvarðinn er að vera í ein­hverjum sam­vistum í að minnsta kosti korter og fundurinn var fjórar mínútur þannig það hefur verið innan marka.“

Birgir segir að hann hafi ekki frétt af öðrum já­kvæðum niður­stöðum hjá þeim þing­mönnum sem fóru í próf í dag og að fjöl­skyldan hans hafi öll drifið sig í test líka og bíða nú eftir því að fá niður­stöðu úr því. Á meðan þau bíða er Birgir í ein­angrun í kjallaranum á heimili sínu.

„Nánasta fjöl­skylda er í sótt­kví næstu heima. Ég er í kjallaranum hérna heima. Ég hef að­stöðu en það er spurning hvað maður gerir þegar horft er til lengri tíma og maður gerir það í sam­ráði við sér­fræðingana.“

Spurður hver tekur við af honum sem for­seti Al­þingis segir Birgir að það séu sex vara­for­setar. Fyrsti vara­for­seti er einnig í ein­angrun með Co­vid, Odd­ný G. Harðar­dóttir, en annar vara­for­seti er Líneik Anna Sæ­vars­dóttir, þing­kona Fram­sóknar­flokksins.