Birgir Ármannsson þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokkins lenti í sjötta sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík sem lauk í gær. Niðurstaðan sé ekki sú sem hann hafi kosið sér en hann muni takast á við verkefnið af krafti.
„Þó að ég hefði persónulega kosið að vera ofar þá tek þessari niðurstöðu og spila úr henni eins og hægt er frá mínum bæjardyrum séð,“ segir Birgir.
„Ég hef alltaf verið í pólitík út af ástríðu fyrir pólitík. Það að vera í framboði fyrir flokkinn og eiga þess þá, ef vel gengur, kost á að vinna á Alþingi er í mínum huga mikilvægt tækifæri til þess að berjast fyrir hugsjónum mínum,“ segir hann enn fremur.
Birgir er ekki ókunnur því að lenda í baráttusæti í prófkjörum flokksins og er þetta í þriðja sinn sem hann lendir í sjötta sæti en hann vermdi sama sæti að loknum tveimur síðustu prófkjörum.

„Ég hef alltaf verið á því bili. Þetta er í þriðja sinn sem ég lendi í sjötta sæti í prófkjöri, var það líka í tveimur síðustu prófkjörum þannig að ég get sagt að maður er að koma út á sléttu – maður hvorki vinnur á né tapar.“
Prófkjörið sýni styrk flokksins
Mikil þátttaka var í prófkjörinu og greiddu meira en sjö þúsund manns atkvæði. Birgir segir þetta til merkis um styrka stöðu Sjálfstæðisflokksins.
„Staðan sú að þetta var fjölmennt og sterkt prófkjör. Ég held að þetta að þetta skili mjög sterkum hopi sem getur leitt flokkinn í Reykjavík í kosningum í haust.“
Nokkur endurnýjun varð í prófkjörinu og hafa þau Sigríður Á. Andersen og Brynjar Níelsson sitjandi þingmenn flokksins lýst því yfir að þau séu hætt í stjórnmálum eftir að þau náðu ekki þeim árangri sem þau vonuðust eftir. Birgir segir missi af þeim af þingi.
„Ef niðurstaðan verður sú, sem allt virðist benda til, að Brynjar og Sigríður hverfi úr þingmannahópnum þá á ég eftir að sakna þeirra sem góðra bandamanna og samstarfsmanna í þingliðinu,“ segir Birgir. Þetta sé til merkis um að sitjandi þingmenn fái ekki sjálfkrafa sæti þar aftur eftir kosningar.
„Það eru sveiflur og sviptingar. Það sem kemur fram í þessu, þveröfugt við það sem stundum er haldið fram, þá ganga þingmenn ekkert að sætum sínum vísum. Í opinberri umræðu er stundum látið í veðri vaka að þetta sé bara einhvers konar sjálfsafgreiðsla fyrir þingmenn en auðvitað er það ekki veruleikinn hvorki nú né áður. Það þurfa allir að sækja sér endurnýjað umboð og í slag af þessu tagi getur allt gerst,“ segir Birgir að lokum.