Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir að smitrakning gangi vel á þeim sem greindust utan sótt­kvíar um helgina. Alls greindust fjór­tán með veiruna um helgina þar af þrír utan sótt­kvíar.

Spurður um hvort búið sé að rekja upp­runa smitanna, svarar Þór­ólfur því neitandi.

„Smitrakningin gengur ekki ein­göngu út á það. Hún gengur líka út á að finna fólk sem tengist við­komandi og eru smitandi, til þess að setja þá í sótt­kví. Þegar við finnum svona fólk á stangli þá gengur þetta út á að finna hvort það séu sam­eigin­legir snerti­fletir og staðir,“ segir Þór­ólfur. „Það hefur gengið á­gæt­lega að finna þá sem við­komandi getur mögu­lega hafa út­sett,“ bætir hann við.

Yfir­völd á­kváðu að herða að­gerðir fyrir helgi til að reyna ná betri tökum á far­aldrinum og standa að­gerðirnar yfir í þrjár vikur. Um það bil þúsund sýni voru tekin innan­lands í gær og greindust fjórir með veiruna, þar af voru tveir í sótt­kví.

Spurður um hvort hann sjái mögu­leika á að létta fyrr á að­gerðum yfir­valda vegna fárra smita, segist Þór­ólfur binda vonir við það.

„Ég bind miklar vonir við að það muni takast. Það sem vekur á­hyggjum er að þetta fólk sem er að greinast utan sótt­kvíar er með mis­munandi undir­tegundir af þessu breska af­brigði sem við getum ekki rakið til land­mæranna. Það bendir til þess að smitin hafa komist í gegnum landa­mærin án þess að greinast þar og ef þau eru að greinast svona út i í sam­fé­laginu, þó það séu mjög fáir, þá gæti verið um fleiri að ræða sem við eigum eftir að sjá,“ segir Þór­ólfur og bætir við að það eigi eftir að koma í ljós.

Ekki þörf á hertum aðgerðum á leikskólum

Spurður um hvort hann hafi ein­hverjar hug­myndir um hvernig þessar þrjár bresku undir­tegundir komu til landsins, segist hann ekki vita til þess.

„Við vitum það ekki. Við vitum hverjir veik­leikarnir í kerfinu okkar eru og það er það sem við erum að reyna að sjá hvort við getum ekki lagað og minnkað þannig á­hættuna enn frekar. Því jafn­vel einn eða tveir ein­staklingar sem koma með veiruna inn geta valdið útbreiddri sýkingu, ef ekkert er gert“

Alls eru 108 ein­staklingar í ein­angrun með virkt smit og 1337 eru í sótt­kví. Tveir af þeim sem eru í ein­angrun eru á aldrinum 1 til 5 ára. Spurður um hvort hann hafi á­hyggjur af smitum inn á leik­skólum landsins eða hvort hann sjái þörf á að herða að­gerðir á leik­skólanum svarar Þór­ólfur því neitandi.

„Ég tel ekki vera þörf á því eins og staðan er núna.“