Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að smitrakning gangi vel á þeim sem greindust utan sóttkvíar um helgina. Alls greindust fjórtán með veiruna um helgina þar af þrír utan sóttkvíar.
Spurður um hvort búið sé að rekja uppruna smitanna, svarar Þórólfur því neitandi.
„Smitrakningin gengur ekki eingöngu út á það. Hún gengur líka út á að finna fólk sem tengist viðkomandi og eru smitandi, til þess að setja þá í sóttkví. Þegar við finnum svona fólk á stangli þá gengur þetta út á að finna hvort það séu sameiginlegir snertifletir og staðir,“ segir Þórólfur. „Það hefur gengið ágætlega að finna þá sem viðkomandi getur mögulega hafa útsett,“ bætir hann við.
Yfirvöld ákváðu að herða aðgerðir fyrir helgi til að reyna ná betri tökum á faraldrinum og standa aðgerðirnar yfir í þrjár vikur. Um það bil þúsund sýni voru tekin innanlands í gær og greindust fjórir með veiruna, þar af voru tveir í sóttkví.
Spurður um hvort hann sjái möguleika á að létta fyrr á aðgerðum yfirvalda vegna fárra smita, segist Þórólfur binda vonir við það.
„Ég bind miklar vonir við að það muni takast. Það sem vekur áhyggjum er að þetta fólk sem er að greinast utan sóttkvíar er með mismunandi undirtegundir af þessu breska afbrigði sem við getum ekki rakið til landmæranna. Það bendir til þess að smitin hafa komist í gegnum landamærin án þess að greinast þar og ef þau eru að greinast svona út i í samfélaginu, þó það séu mjög fáir, þá gæti verið um fleiri að ræða sem við eigum eftir að sjá,“ segir Þórólfur og bætir við að það eigi eftir að koma í ljós.
Ekki þörf á hertum aðgerðum á leikskólum
Spurður um hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um hvernig þessar þrjár bresku undirtegundir komu til landsins, segist hann ekki vita til þess.
„Við vitum það ekki. Við vitum hverjir veikleikarnir í kerfinu okkar eru og það er það sem við erum að reyna að sjá hvort við getum ekki lagað og minnkað þannig áhættuna enn frekar. Því jafnvel einn eða tveir einstaklingar sem koma með veiruna inn geta valdið útbreiddri sýkingu, ef ekkert er gert“
Alls eru 108 einstaklingar í einangrun með virkt smit og 1337 eru í sóttkví. Tveir af þeim sem eru í einangrun eru á aldrinum 1 til 5 ára. Spurður um hvort hann hafi áhyggjur af smitum inn á leikskólum landsins eða hvort hann sjái þörf á að herða aðgerðir á leikskólanum svarar Þórólfur því neitandi.
„Ég tel ekki vera þörf á því eins og staðan er núna.“