Mick Jagger og Keith Richards hafa nú bundið enda á einn gremjulegasta höfundarréttarágreining í breskri tónlistarsögu með því að veita Richard Ashcroft, aðalsöngvara og gítarleikara The Verve, allar framtíðar greiðsluþóknanir fyrir lagið Bitter Sweet Symphony samkvæmt The Guardian.

Þetta tilkynnti Ashcroft sama dag og honum voru veitt Ivor Novello-verðlaunin fyrir framúrskarandi framlag til breskrar tónlistar.

„Þessi ótrúlega atburðarás var sett af stað með göfugu og vingjarnlegu góðverki Micks og Keiths, sem hafa einnig samþykkt að höfundarrétturinn undanskilji nöfn þeirra og að allar framtíðar höfundarlaunagreiðslur af laginu renni nú til mín,“ sagði Ashcroft.

Ágreiningurinn, sem snerist um notkun The Verve á fjögurra sekúndna löngum hljóðbút úr laginu „The Last Time“ eftir the Rolling Stones er einn sá þekktasti í breskri tónlistarsögu. Lagið var gefið út áður en The Rolling Stones höfðu samþykkt notkun hljóðbútsins að fullu.

Útgáfufyrirtækið ABKCO, sem er í eigu umboðsmanns Rolling Stones, Allen Klein, sagði The Verve hafa notað lengri hluta lagsins en um var samið. Í kjölfar málsóknar sem var útkljáð utan dómstóla í lok árs 1997 neyddist Ashcroft til þess að afsala sér höfundarlaunagreiðslunum og veita Jagger og Richards höfundarrétt fyrir lagsmíðina. Ashcroft skaut síðan til baka: „Þetta er besta lag sem Jagger og Richards hafa skrifað í 20 ár.“

Bitter Sweet Symphony náði öðru sæti á breska vinsældalistanum og var tilnefnt til Grammy-verðlauna. Lagið var smáskífa af plötunni Urban Hymns, sem skaust upp í fyrsta sæti breska vinsældarlistans og seldist í rúmlega 10 milljónum eintaka. Platan er í 19. sæti yfir söluhæstu bresku plötur allra tíma.

The Guardian segir Jagger og Richards hafa samþykkt án skilyrða að láta af hendi höfundarréttinn.

„Síðast en ekki síst afdráttarlausar og innilegar þakkir og virðingarvottur til Micks og Keiths,“ segir í niðurlagi þakkarorða Ashcrofts.