Hjörtur Jóhann Jónsson leikari fer með aðalhlutverk í hátíðarsýningu Borgarleikhússins, Macbeth, sem frumsýnd var föstudaginn 13. janúar síðastliðinn.

Samkvæmt gamalli hjátrú má ekki nefna hið fjögurhundruð ára sígilda Shakespeare-verk á nafn í leikhúsi, ella fari allt í skrúfuna. Óvænt bilun leiddi til þess að fjörutíu mínútna hlé var gert á sýningu.

Hjörtur sagði í samtali við Fréttavaktina að leikhópurinn hafi á endanum haft gaman að uppákomunni. „Þetta var svo hreint og tært leikhús-augnablik.

Þetta er bara list augnabliksins og hvað sem er getur gerst, og það er þetta sem er skemmtilegt og spennandi við leikhús.“

Hann segir að auðvitað geti slík atvik komið upp á þegar allt gerist í rauntíma.

„Allt í einu byrja ljós að blikka á algjörlega handahófskenndum stöðum og ég hugsa: Er ég að ímynda mér þetta, og svo ágerist þetta, og svo kemur þetta í ljós. Okkur í leikhópnum fannst þetta ofboðslega skemmtilegt. Mikil aukagjöf fyrir þetta kvöld.“