Ís­leifur Þór­halls­son, fram­kvæmda­stjóri Senu Live, segir að hann sé mjög á­nægður með tónleikana í Eyjum í gær en segist hafa fullan skilning á því að fólk sé ó­sátt við „lagg“ sem var á streymi en bilun kom upp í net­streymi í upp­hafi tón­leikanna.

Ís­leifur var ekki kominn með loka­tölur um hversu margir horfðu á tón­leikana en gerir ráð fyrir því, miðað við sölu­tölur, að það hafi verið á milli átta og tíu þúsund mann sem keyptu og það megi gera ráð fyrir því að um 30 til 40 þúsund manns hafi horft ef að þrír til fjórir hafi notað hvern miða.

„Það voru ein­hver vand­ræði í byrjun en það lagaðist. Þetta er auð­vitað ó­trú­lega svekkjandi fyrir fólk sem er búið að kaupa miða, skipu­leggja og setjast niður til að horfa að lenda í lagg-vand­ræðum. Við skiljum það mjög vel,“ segir Ís­leifur.

Hann segir að hann eigi eftir að fá ná­kvæma greiningu frá tækni­fólki fyrir­tækisins hvað ná­kvæm­lega gerðist.

„Þetta var rosa­lega vel heppnað og mikil gleði í hópnum,“ segir Ís­leifur um tón­leikana sjálfa og segir að allt hafi gengið eins og í sögu í Dalnum.

Sannkölluð eldskírn

„Hann stóð sig frá­bær­lega. Mjög sjarmerandi og góður,“ segir Ís­leifur um Magnús Kjartan Eyjólfsson sem söng brekkusönginn í ár í fyrsta sinn.

Magnús Kjartan sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrr í dag að tilraun hefði verið gerð til að blinda hann á sviði.

„Útsendingastjórn gerði heiðarlega tilraun til að blinda mig. Þau voru með eldker á sviðinu og frá þeim kom reykur sem fór beint í augun á mér. Það bjargaðist á endanum. Ég lokaði bara augunum og lifði mig enn betur inn í sönginn á meðan,“ sagði Magnús Kjartan.

Spurður út í at­vikið segir Ís­leifur að Magnús Kjartan taki það á kassann.

„Þetta var bók­staf­leg eld­skírn. Það var að­eins of mikill eldur og hann var að­eins of ná­lægt honum þannig hann fékk nokkuð af reyk í augun. Þetta var ekki þægi­legt fyrir hann, en var dregið í burtu eins fljótt og hægt var,“ segir Ís­leifur.

Bilun í útsendingu auglýsinga

Þó­nokkrir hafa kvartað yfir fjölda aug­lýsinga­hléa sem voru á meðan út­sendingunni stóð og að þau hafi verið illa tíma­sett.

Ís­leifur segir að það hafi komið upp bilun með það. Upp­haf­lega hafi planið verið að hafa fjögur hlé og klára þau fyrir brekku­sönginn.

„Þetta er þriggja tíma dag­skrá og það voru fjögur hólf og voru öll sett í fyrri partinn, sem er undir­búningur fyrir brekku­sönginn. En það kom upp eitt­hvað vanda­mál og mynd­stjórn gat ekki sent út aug­lýsingarnar. Þannig við fórum í aug­lýsinga­hlé en það komu engar aug­lýsingar, heldur eitt­hvað skilti,“ segir Ís­leifur sem segir að þess vegna hafi þurft að setja aug­lýsingar þar sem þær höfðu ekki verið planaðar.

„Þetta setti smá klúðurs­brag á þetta.“

Hvað varðar gagn­rýni fólks að setja aug­lýsingar í dag­skrá sem búið er að greiða fyrir segir hann það mjög al­gengt, bæði í í­þróttum og öðru sjón­varps­efni.

„Miðinn á streymið er mjög ódýr og hver hópur þarf bara að kaupa einn miða. Þetta er gert til að halda niðri miða­verðinu. Þetta er enginn rekstur að vera í streymis­tón­leikum þannig maður biður fólk að sýna þessu skilning,“ segir Ís­leifur.

Vonar að þetta hafi verið einstök upplifun

Hann segir að heilt á litið hafi þetta heppnast ein­stak­lega vel en vonast þó til þess að tón­leikarnir í Dalnum verði aldrei aftur með þessu sniði.

„Eins og þetta var skemmti­legt í gær þá vona ég að brekku­söngurinn verði aldrei aftur án á­horf­enda. Við virki­lega vonum að þetta hafi verið ein­stakt og verði aldrei gert aftur, að brekku­söngurinn sé haldinn fyrir tómri brekku,“ segir hann að lokum.

Hér að neðan má sjá viðbrögð nokkurra netverja við brekkusöngnum í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð með áætluðum áhorfstölum klukkan 16:01.