Bílstjóri vöruflutningabílsins, sem í fundust 39 lík fyrr í dag, heitir Mo Robinson og er 25 ára gamall tilvonandi faðir frá Norður-Írlandi. Talið er að hann hafi sótt frystigáminn, sem innihélt líkin, í Essex aðeins örfáum mínútum áður en lögregla fann líkin. Enn er óljóst hvort Robinson hafi vitað af þeim í gámnum.

Grunaður um fjöldamorð

Fjölskylda bílstjórans er í miklu áfalli eftir fréttirnar í dag og segjast, í samtali við erlenda fjölmiðla, ekkert hafa heyrt frá honum lengi og ekki heldur vita hvort hann væri sjálfstætt starfandi eða í vinnu sem bílstjóri hjá fyrirtæki. Vitað er að Robinson sótti gáminn, sem kom frá belgísku hafnarborginni Zeebrugge til Purfleet í Englandi, í kringum miðnætti í gær.

Um er að ræða 38 fullorðna einstaklinga og einn táning.
Fréttablaðið/Getty images

Robinson var handtekinn aðeins örfáum mínútum eftir að hann sótti gáminn og er nú í haldi grunaður um fjöldamorð í einhverju undarlegasta sakamáli sem upp hefur komið í Bretlandi.

39 fundust látnir í gámnum en ekki er enn vitað hvers þjóðernis þeir voru. Um er að ræða 38 fullorðna einstaklinga og einn táning og er talið að málið tengist mansali. Talið er að gámurinn hafi upprunalega farið frá höfn í Búlgaríu.

Pippa Mills lögreglustjóri umdæmisins sagði fyrr í dag að það væri í forgangi hjá lögreglunni að bera kennsl á hina látnu.