Shpetim Qerimi, bílstjórinn sem ók Angjelin Stark Merka­j að heimili Armando Beqirai við Rauðagerði, segist hafa verið fullur þennan dag og hafa lítið munað þegar hann ræddi við lögreglu.

Hann lýsti fundi í Borgarnesi daginn fyrir morðið, aðdragandann að árásinni og því sem fylgdi. Aðalmeðferð fer fram í Rauðagerðismálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem fjórir sakborningar flytja mál sitt og sitja fyrir svörum sækjanda og verjenda.

Málið varðar fyrrnefndan Armando, sem var skotinn til bana með skammbyssu fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Angjelin hefur þegar játað á sig morðið en hin þrjú, sem sökuð eru um aðild að málinu, hafa neitað sök.

Í skýrslutöku Angjelin í morgun sagðist hann hafa veifað til Sphetim eftir að hafa skotið Armando til bana, farið upp í bílinn og sagt við Sphetim: „Hann mun ekki hóta neinum eða drepa lengur.“ Aðspurður um þessu orð Angjelin sagðist Shpetim hafa verið það fullur að hann hafi ekki skilið hann: „Ég var ekkert að hlusta á hvað hann væri að segja. Ég vissi ekkert hvað hann væri að tala um.“

Ráðlagði Angjelin að sættast við mennina

Shpetim segir Angjelin hafa beðið sig og Claudiu, unnustu Angjelin, að hitta sig í Borgarnesi föstudagskvöldið 12. febrúar til að ræða eitthvert mál. Claudia hafi keyrt og Shpetim drukkið bjór á leiðinni. Þegar komið var til Borgarness bað Angjelin Shpetim um að láta Claudiu fá símann sinn áður en þeir fóru afsíðis til að tala saman.

„Við fórum út og hann spurði mig um ráð. Angjelin sagði að Goran væri að hóta sér og barni sínu lífláti. Hvað heldur þú að sé best að gera, spurði hann mig. Ég sagði við Angjelin að hringja í lögregluna eða kæra. Mín ráð voru að sættast bara við þá og ekki vera með neitt vesen. Best að sættast og ekki hafa það lengra,“ lýsti Shpetim þegar hann bar vitni í dag.

Angjelin lýsti því í morgun að Armando hafi verið í slagtogi við téðan Goran sem heitir fullu nafni Goran Kristján Stojanovic. Armando og félagi hans hefðu farið fram á 25 milljónir hvor frá Anton Kristni Þórarinssyni og var Angjelin beðinn um að hafa milligöngu um það og taka börnin hans Antons af honum. Angjelin segist hafa neitað og hafi því Armando og félagar hans hótað sér lífláti.

Angjelin Stark Merka­j játaði að hafa skotið Armando til bana.
Fréttablaðið/Anton Brink

Geymdi morðvopnið heima hjá sér

Eftir fundinn í Borgarnesi gaf Angjelin Claudiu tösku sem innihélt morðvopnið og sagði þeim að keyra aftur til Reykjavíkur. Shpetim segist hafa geymt svo töskuna heima hjá sér og daginn eftir hafi þau farið tvö saman heim til Angjelin. Þann dag hafi hann verið að mestu að drekka bjór. Hann og Murat lýstu því báðir í skýrslutökum sínum að þeir hafi hist þennan dag til að ræða baðherbergisframkvæmdir og þau þrjú, þ.e. Murat, Claudia og Shpetim, hafi svo farið út að keyra til þess að kaupa fíkniefni hjá manni sem kallaður var Donald eða Dennis.

Hann varð svo viðskila við Murat og Claudiu og hafi þá Angjelin beðið hann um að koma með sér í bíltúr, sagðist ætla í Costco. Angjelin hafi keyrt bílinn að Rauðagerði.

„Ég var líka fullur þann dag þannig ég man ekki allt sem gerðist.“

Neitaði að aka yfir á rauðu ljósi

„Við förum þarna að staðnum þar sem hann segir mér að skipta um sæti,“ lýsti Shpetim í vitnisburði sínum og segir Angjelin hafa farið frá í 6-10 mínútur. „Þegar ég var að borða sá ég Angjelin veifa mér. Ég keyrði beint til hans þar sem hann stóð við beygju. Ég náði í hann og hann sagði mér bara að keyra.“

Aðspurður sagðist hann ekki hafa vitað að Angjelin ætlaði að ræða við Armando heldur stóð hann í þeirri meiningu að hann væri að selja fíkniefni. Hann hafi ekki séð byssuna þar sem Angjelin var í stórri úlpu. Þeir hafi lent strax á rauðu ljósi og Angjelin beðið hann um að keyra yfir en Shpetim sagt nei, þeir væru á rauðu ljósi. Beið hann eftir grænu ljósi í rólegheitunum og keyrði svo áfram.

Frétti af morðinu daginn eftir

Angjelin og Shpetim keyrðu saman norður í Varmahlíð þessa nótt þar sem Claudia hitti þá. Var Shpetim þá sendur aftur til Reykjavíkur og segist hann ekki hafa frétt af morðinu fyrr en daginn eftir, þ.e. á sunnudeginum þegar hann hringdi í félaga sinn varðandi hund sem hann ætlaði að gefa dóttur sinni.

„Ég hafði samband við hann til að skoða hundinn, þá sagði hann ertu ekki að djóka? Veistu ekki hvað gerðist? Hann sagði að Armando hafi verið drepin í gærkvöldi. Ég sagði hvað meinarðu? Hann sagði það væri búið að skjóta Armando.“ Hringdi Shpetim þá í Angjelin. „Ég spurði hann: Veistu hvað gerðist? Hann svaraði já, ég er búinn að frétta þetta. Ég spurði hann hvort hann hafði eitthvað með þetta að gera og hann sagði bara nei og ekki tala í síma um þetta.“

Angjelin og Claudia hafi komið heim til hans á mánudeginum og fylgst með fréttunum.

„Hann sagði: ég held að þeir hugsi að ég hafi gert þetta. Ég sagði við hann: Þau halda að þú hafir gert þetta og þú kemur hingað til að skemma mitt líf? Ég sagði honum að fara út.“

Kolbrún Benediktsdóttir sækjandi benti á að Shpetim hefði breytt framburði sínum ítrekað í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Í fyrstu hafi hann haldið því fram að hann hefði ekki hitt Angjelin í Rauðagerði. Sagðist hann hafa verið í áfalli vegna handtökunnar.

„Þetta var svo ill handtaka. Þetta var bara eins og ég væri hryðjuverkamaður. Þau rústuðu húsinu og ég var ekki ég sjálfur.“ Sagðist hann ekki hafa verið í rétta ástandi til að gefa skýrslu. „Ég var líka fullur þann dag þannig ég man ekki allt sem gerðist.“