Akstur frá höfuðborgarsvæðinu á Keflavíkurflugvöll verður í forgangi hjá Reykjavík Excursions á föstudaginn. Verkfall hópbifreiðastjóra og hótelstarfsmanna hefst á föstudagsmorgun. Forstjóri Reykjavík Excursions segir að þeir rútubílstjórar, sem ekki eru í VR eða Eflingu, muni aka á föstudaginn og það sé ekki túlkun fyrirtækisins að verkfallsboðun nái til þeirra, líkt og stéttarfélögin hafa fullyrt. 

Raskanir en flugakstur í forgangi

„Við gerum ráð fyrir að þetta muni hafa töluverð áhrif á okkar dagsferðir og vorum búin að loka fyrir hluta af okkar dagsferðum. Það munu verða einhverjar raskanir og við náum ekki að sinna allri okkar þjónustu,“ segir Björn Ragnarsson, forstjóri Reykjavík Excursions, í samtali við Fréttablaðið. Aðspurður segir hann áherslu fyrirtæksins vera að koma farþegum út á flugvöll og ferja fólk til Reykjavíkur á föstudag. „Það er ekkert mikið meira sem við náum að sinna.“

Aðspurður um ólíkar túlkanir á því hverjir séu á leiðinni í verkfall á föstudaginn segir Björn það vera túlkun stjórnenda fyrirtækisins, sem og túlkun Samtaka atvinnulífsins, að þeir rútubílstjórar sem ekki eru meðlimir í Eflingu eða VR megi sinna starfi sínu á föstudaginn, það séu um þrjátíu rútubílstjórar af 200. 

Kusu ekki um verkfall

„Það eru tvö stéttarfélög sem hafa boðað verkfall og verkfallið nær til þeirra félagsmanna, sem auðvitað kusu um verkfall. Við erum með starfsmenn, bílstjóra sem eru í öðrum stéttarfélögum og samkvæmt skilningi okkar og lögmanna SA þá nær verkfallsboðunin ekki til þeirra, enda kusu þeir ekki um verkfall,“ segir Björn.

Þeir rútubílstjórar eru að sögn Björns í ýmsum öðrum stéttarfélögum, meðal annars stéttarfélögum á Suðurnesjum. „Svo hafa menn verið í alls konar félögum. Við lítum svo á og lögin eru þannig og það er félagafrelsi. Þú ræður í hvaða félagi þú ert, en þarna er Efling að túlka þetta þröngt og vilja meina að þau eigi einkarétt á þessu svæði.“

Björn segir að bréf hafi borist hópbifreiðafyrirtækjunum í gær frá Eflingu þar sem stéttarfélagið segi verkfallið ná yfir alla hópbifreiðastjóra á félagasvæði Eflingar. Segir Björn Samtök atvinnulífsins engan vegin vera sammála þessari túlkun. „Ef að Efling ætlar að beita verkfallsvörslu eins og þau túlka þetta samkvæmt sínu bréfi þá mun auðvitað öll okkar starfsemi stoppa. Þeir eru að túlka það þannig að eini sem megi keyra sé forstjóri fyrirtækisins og það segir sig sjálft að einn maður er ekkert að fara að sinna neinu,“ segir Björn sem er þó með meirapróf og ætlar sjálfur að sinna störfum rútubílsjóra á föstudaginn. 

Stéttarfélög skaðabótaskyld

Eitt af verkefnum rútubílstjóra Reykjavík Excursions er að aka áhöfnum Icelandair upp á flugvöll. Það verður þó ekki gert á föstudaginn, en að sögn Björns hefur verið gert samkomulag við flugfélagið.„Icelandair mun sinna því sjálfir á annan hátt. Þannig það er búið að búa til plan sem felst ekki í neinum verkfallsbrotum en það er bara búið að leysa málin þannig það á ekki að hafa nein áhrif á flugáætlanir.“

Að lokum bendir Björn á að ef að verkfallsvarsla stéttarfélaganna sé þannig að hún sé ólögleg, til dæmis með því að stoppa bílstjóra sem aka löglega, þá geti stéttarfélögin verið skaðabótaskyld. „Segjum bara sem svo að einhver okkar farþegi missi af flugi út af ólöglegri verkfallsvörslu þá getur stéttarfélagið borið ábyrgð á því tjóni. Það er til dómur þar sem kona missti af flugi frá Akureyri til Reykjavíkur út af verkfallsvörslu þar sem yfirstjórnendur flugfélaga gengu í störf undirmanna, sem er löglegt, og þá var stéttarfélagið dæmt til að greiða henni það tap sem hún varð fyrir. 

Þannig það er til dómafordæmi fyrir því. Ef að verkfallsvarslan er þannig að við erum innan lagarammans að keyra á okkar bílstjórum og þeir stoppa þessar samgöngur og flug raskast og fólk missir af flugi þá getur stéttarfélagið verið skaðabótaskylt.“

„Ef þú ert hópbifreiðastjóri í Reykjavík þá átt þú að vera í Eflingu“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði í samtali við Fréttablaðið í morgun að túlkun stéttarfélagsins sé sem svo að verkfallsboðunin nái yfir alla hópbifreiðarstjóra á félagssvæði Eflingar, þar sem Efling sé eina stéttarfélagið sem er með gildan kjarasamning fyrir þessa starfsstétt á því svæði.

„Það er til í dæminu að það séu einstaklingar sem séu ranglega skráðir í félag, hópbifreiðastjóri sem er kannski skráður í VR eða stéttarfélag utan félagssvæðisins, og við teljum ekki að fólk sé undanskilið verkföllum af þessum sökum. Við lítum svo að ðboðunin nái til þeirra sem eiga að vera í Eflingu og þá bjóðum við bara þeim einstaklingum að leiðrétta sína félagsaðild og gerum það bara hratt og örugglega,“ sagði Viðar.

„Allir sem að starfa eftir samningnum okkar sem tekur til þessa félagssvæðis, í tilfelli rútubílstjóri, er Efling eina stéttarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan að vísu Hafnarfjörð, sem er með gildan kjarasamning fyrir störf hópbifreiðastjóra þar af leiðir að ef að þú ert hópbifreiðastjóri í Reykjavík þá átt þú að vera í Eflingu.“