Lögreglan hefur haft uppi á bíl Mohamed Ahmed C. Rizayri, íbúa í Breiðholti. Mohamed segist himinlifandi vegna þessa en hyggst hugsa sig tvisvar um áður en hann keyrir um seint á kvöldin aftur.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Mohamed hefði óskað eftir aðstoð íbúa í Breiðholti við að hafa uppi á bíl sínum. Mohamed var staddur við Mjódd fyrir utan Landsbankanna þegar kona og karlmaður spreyjuðu efni framan í hann, drógu hann út úr bíl hans og keyrðu á brott.

„Ég er hressari í dag heldur en ég var í gær,“ segir Mohamed léttur í bragði. Hann varð hinsvegar að leita sér aðstoðar að nýju á heilsugæslu vegna meiðsla á hálsi og eymsla í augum eftir árásina.

„En um eittleytið í dag hafði lögreglan samband og sagðist hafa fundið bílinn á N1 bensínstöðinni við ÍR heimilið í Skógarseli,“ segir Mohamed. Hann ber lögreglunni vel söguna og segist hafa fengið far hjá tveimur lögreglumönnum að bílnum sínum.

„Og þá kom í ljós að þau höfðu skilið lykilinn eftir í bílnum og símann minn. Veskið var hinsvegar galtómt,“ segir Mohamed. Hann segir að sér hafi verið tjáð af lögreglunni að um góðkunningja hennar væri að ræða. Lögreglumennirnir teldu sig vita hverjir hafi verið að verki og þeirra væri nú leitað.

„Kannski finnast seðlarnir,“ segir Mohamed en viðurkennir að hann sé bara feginn að bíllinn hafi komið í leitirnar og að hann sé sjálfur heill á húfi.

Aðspurður að því hvernig sér líði eftir árásina, segir Mohamed: „Þetta var eiginlega bara klikkað, ég hef aldrei lent í neinu svona áður en mér líður miklu betur núna. Ég veit ekki hvort ég muni keyra bílinn minn um svona seint að kvöldi aftur samt,“ segir hann að lokum en árásin átti sér stað um hálfellefuleytið í fyrrakvöld.