Bíll fór í sjóinn í Skötufirði á Vestfjörðum á ellefta tímanum í dag. Þrír voru í bílnum. Tvær þyrlur frá Landhelgisgæslunni og björgunarsveitir eru á leið á vettvang. Um borð í fyrri þyrlunni sem fór af stað voru þrír kafarar og í báðum þyrlum eru læknar.

Einnig hafa lögregla, sjúkrabílar og slökkvilið ásamt björgunarsveitum verið kölluð út. Í samtali við Fréttablaðið staðfestir, Karl Vilbergsson lögreglustjóri Vestfjarða, að þrír hafi verið í bílnum en getur ekki sagt meira um málið að svo stöddu.

Hann segir að lögreglan muni senda frá sér tilkynningu um málið þegar meira liggur fyrir. Rúv greindi fyrst frá slysinu.

Skötufjörður er í Ísafjarðardjúpi í tæplega klukkustundar akstursfjarlægð frá Ísafirði.