Yfirmenn hjá Microsoft báðu Bill Gates, stjórnarformann fyrirtækisins, að hætta að senda óviðeigandi tölvupósta á kvenkyns undirmann hans árið 2008. Wall Street Journal greinir frá því í dag að atvikið hafi átt sér stað meira en áratug áður en stjórnendur Microsoft fréttu af ástarsambandi Gates við konu sem starfaði hjá fyrirtækinu, varð það til þess að Gates hætti í stjórn fyrirtækisins.

Tölvupóstarnir voru sendir árið 2007 og innihéldu beiðnir um að hitta Gates eftir vinnu og fjarri vinnustaðnum. Yfirmennirnir fréttu af þeim árið 2008 og funduðu með Gates þar sem hann var beðinn um að láta af slíku athæfi. Gates mun hafa viðurkennt að tölvupóstarnir væru yfir strikið.

Stjórn fyrirtækisins aðhafðist ekkert þar sem Gates hafi aldrei hitt konuna utan vinnustaðarins. Talsmaður Gates segir þetta alrangt og frétt WSJ megi rekja til óstaðfestra orðróma.

Daðurskenndir póstar

Talsmaður Microsoft sagði að Gates hefði sent póstana. Starfsmaðurinn hafi sjálf ekki kvartað undan þeim. „Þeir voru daðurskenndir en ekki kynferðislegir, þetta var metið sem óviðeigandi,“ er haft eftir Frank Shaw, talsmanni fyrirtækisins.

Árið 2019 fékk stjórn Microsoft bréf frá konu sem starfar sem verkfræðingur hjá fyrirtækinu, sagði hún frá ástarsambandi milli sín og Gates. Gates hætti sem stjórnarformaður árið 2014, hann hætti svo í stjórninni eftir innri rannsókn á innihaldi bréfsins. Bill og Melinda Gates tilkynntu síðasta vor að þau væru skilin eftir 27 ára hjónaband.