Bill Gates er ekki hrifinn af raf­myntum og hefur ekki mikla trú á fjár­festingum í þeim. Í ræðu á mál­fundi TedCrunch á fimmtu­daginn lét hann þau orð falla að við­skipti með raf­myntir og bálka­keðju­list (NFT) byggðust al­farið á „meira­fífls­kenningunni“, það er að virði fjár­festinganna byggist ein­göngu á því að hægt sé að finna fólk sem er reiðu­búið til að greiða hærra verð fyrir þau.

Gates sagði í kímni að „rán­dýrar staf­rænar myndir af öpum“ myndu vafa­laust „bæta heiminn heil­mikið“ og vísaði þar til vin­sælla, tölvu­fram­leiddra bálka­keðju­mynda af öpum sem hafa verið seldar fyrir fúlgur fjár. Apa­myndirnar eru dæmi um „ó­út­skiptan­leg tákn“ (e. Non-Fungi­ble To­ken) sem eiga að sanna eignar­hald á staf­rænum eignum.

„Ég er vanur tegundum eigna eins og bónda­býlum sem gefa af sér af­urðir eða fyrir­tækjum sem fram­leiða vörur,“ sagði Gates.

Raf­mynta­fjár­festinga­geirinn er nú í sárum vegna yfir­standandi verð­hruns í bitcoin og öðrum vin­sælum raf­myntum.