Bill Clin­ton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur verið út­skrifaður af spítala í Suður-Kali­forníu þar sem að hann hefur dvalið síðustu daga vegna sýkingar. Á vef AP kemur fram að hann hafi verið út­skrifaður snemma morguns að staðar­tíma en hann lagðist inn síðasta þriðju­dag með sýkingu sem var strax sögð ó­tengd Co­vid-19

Tals­kona for­setans, Angel Ureña, sagði í gær að hann myndi dvelja eina nótt til við­bótar á spítalanum til að fá frekari sýkla­lyf en að bata­horfur væru góðar og að honum hefði batnað mikið síðasta sólar­hringinn.

Eigin­kona Clin­ton, Hillary, hefur verið með honum á spítalanum og var með honum þegar hann var út­skrifaður á sunnu­dag.

For­seti Banda­ríkjanna, Joe Biden, sagði á föstu­dag að hann hefði talað við Clin­ton og að hann hefði sent honum bata­kveðjur.

„Honum líður vel, í al­vöru,“ sagði Biden í á­varpi í Há­skólanum í Connecticut á föstu­dag.