Monica Lewinsky, fyrrum starfsnemi í Hvíta húsinu sem varð heimsfræg eftir að upp komst um ástarsamband hennar og Bills Clinton, var gestur í spjallþætti John Oliver í fyrradag. 

Þar ræddi hún meðal annars þá opinberu smánun sem hún upplifði eftir að upp komst um ástarsamband hennar við þáverandi forseta Bandaríkjanna.

Lewinsky hefur einungis veitt örfá viðtöl síðustu ár, en í fyrradag spurði John Oliver hana meðal annars hvernig hún komst í gegnum fjölmiðlafárið og niðurlæginguna í kjölfar ástarsambandsins. Sagði Lewinsky það hafa verið erfitt. 

„Þetta var flóð af niðurlægingu og skömm. Ég hefði ekki getað komist í gegnum þetta hefði það ekki verið fyrir fjölskyldu mína og vini,“ sagði Lewinsky og fullyrti að það að hafa orðið opinber persóna hafi gjörbreytt lífi hennar. „Ég var 24 ára og það var mjög erfitt að halda reisn sinni og sjálfsvirðingu sinni þegar maður var bara brandari í augum allra.“ 

Neitaði að breyta um nafn

Monica Lewinsky ber eitt þekktasta nafn í stjórnmálasögu síðari ára og segir hún marga hafið ráðlagt henni að breyta um nafn.

Hún telur hins vegar sjálf það ekki hafa breytt neinu í atvinnuviðtölum, fólk myndi þekkja andlit hennar hvort sem er. Þá sagði Lewinsky það grundvallaratriði að halda nafni sínu, hún sé stolt af sjálfri sér og skammist sín ekki. „Bill Clinton þurfti ekki að breyta um nafn. Enginn spurði hann hvort hann vildi skipta um nafn.“

Talsmaður gegn neteinelti

Sem fyrr segir hefur Lewinsky ekki veitt mörg viðtöl síðustu ár, en fyrir fjórum árum flutti hún TED-fyrirlestur þar sem hún lýsti þeirri reynslu sinni fyrir framan alla heimsbyggðina. Fyrirlesturinn vakti gífurlega athygli og ári seinna veitti hún rithöfundinum og fréttamanninum Jon Ronson sjaldgæft viðtal þar sem hún ræddi opinskátt um reynslu sína. Þar lýsti hún meðal annars reynslu sinni í kjölfar fjölmiðlafársins og hvernig hún átti erfitt um margra ára skeið, eftir að upp komst um framhjáhaldið með Clinton. 

Hún segist nú hafa snúið hálfu sterkari til baka í sviðsljósið og verið ötull talsmaður gegn neteinelti, enda var hún hluti af fyrsta og stærsta dæmi um opinbera smánun á netinu.