Aðspurður hvenær hann hafi byrjað að plokka segist Einar hafa um áraraðir dáðst að vini sínum,Tomma Knúts, í Bláa hernum, og kraftinum í honum. “Svo voru fleiri góðir aðilar manni hvatning í þessum efnum og ég var alltaf að hugsa: „Ég verð að fara að gera eitthvað, það er ekki hægt að sitja bara á rassinum.“ Þá sá ég þetta plokkæði sem var að fæðast í Svíþjóð og hugsaði með mér að kannski gæti ég notað hæfileika mína í almannatengslum og markaðsmálum og búið bara til svona „plokkæði“ á Íslandi.

Svo hófst þetta í raun í febrúar 2018 þegar ég var við störf sem samskiptastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ. Ég var að fylgjast með umræðu á hverfasíðu um tjörn við Byggðasafnið sem hafði fengið mikið magn af plastpokum og plast- og áldósum í heimsókn og íbúum blöskraði þetta vitaskuld.

Ég fór að hugsa hvaðan þetta væri og hvernig þetta væri tilkomið og las alls konar kenningar um það hverjum væri um að kenna.

Þar sem ég las þetta hugsaði ég: „Hvaða rugl er þetta? Ég er fljótari að keyra þarna niður eftir og tína þetta upp en að lesa þennan þráð.“ Þannig að ég tók poka úr búrskápnum og hanska og fór niður að byggðasafni og hreinsaði þetta bara upp.

Þetta var ekki í starfslýsingu samskiptastjórans en ég hafði þó séð til Haraldar bæjarstjóra nokkra laugardags- og sunnudagsmorgna tína upp rusl í miðbænum og ég veit að það var ekki í hans starfslýsingu heldur.

Í framhaldi stofnaði ég síðuna Plokk á Íslandi þann 1. mars 2018 og þá fór þetta allt að rúlla og er orðið fjöldahreyfing með stóran hóp öflugra sjálfboðaliða. Því eins og Mugison segir svo skemmtilega: „Þú gerir ekki rassgat einn.”


"Þar sem ég las þetta hugsaði ég: „Hvaða rugl er þetta? Ég er fljótari að keyra þarna niður eftir og tína þetta upp en að lesa þennan þráð.“

Gott og gefandi


Hvaðan kemur drifkrafturinn í þetta sjálfboðaliðastarf?

Ég hreinlega veit það ekki en þetta er sannarlega gefandi og gott að vera úti í náttúrunni. Svo er afskaplega gott að finna þakklætið frá fólki í kringum mann. Guðni Gunnarsson, vinur minn og leiðbeinandi í lífsins lykkjum, hefur sagt mér að honum finnist uppvaskið mesta hugleiðslan. Ég upplifi það reyndar mjög sterkt í þessu.

Svo er það nú þannig að þetta plokkbrölt mitt hefur hvatt mig til að láta enn frekar til mín taka í umhverfismálum og síðasta sumar tók ég við starfi framkvæmdastjóra Votlendissjóðs.

Þar er ég líka að vinna að frábærum verkefnum, með Landgræðslunni og flottum fyrirtækjum og stjórn sjóðsins, sem hafa mikla þýðingu fyrir umhverfið. Þannig að ég er bara einhvern veginn kominn alveg á kaf í umhverfismál og ég nýt þess, það er mikill lífsfylling að gera eitthvað í leik og starfi sem hefur einhverja þýðingu í lok dags og skilur eftir sig góða tilfinningu.

Einar segir það bæði gott og gefandi að fegra umhverfi sitt, þegar ljósmyndari hitti á hann á Sumardaginn fyrsta var hann ásamt syni sínum að týna rusl við Reykjanesbraut, kampakátir báðir tveir. Fréttablaðið/Valli

Hversu oft plokkarðu og með hverjum?

Ég plokka mest á vorin og inn í sumarið og svo aftur á haustin og fram að jólum. Það er mitt keppnistímabil. Ég set það ekki fyrir mig að fara einn og svo koma oft plokkarar úr grúppunni með mér. Konan mín fer oft með mér, tengdó og systir hennar hafa líka komið með. Mamma er rosalega dugleg líka en hún býr fyrir austan þannig að við förum ekki oft saman. En þetta er þannig að það þarf ekkert próf, reynslu eða sérþekkingu í þetta. Það geta þetta allir.


Hvað er það skrítnasta sem þú hefur plokkað?

Það hefur verið ýmislegt en húddið af Citroen C3 í heilu lagi á Reykjanesbrautinni var svolítið sérstakt. En svo er þetta stundum heilmikil stúdía á mannlegu eðli og hegðun. Oft stendur maður yfir einhverju sem maður skilur ekki hvernig komst þangað og svo veltir maður líka vindáttum og öðru fyrir sér. Hvernig stendur á því að allt safnast saman í þessum enda svæðisins en ekki hinum megin. Það getur bara verið skemmtilegt rannsóknarefni.

Rusl á viðeigandi stofnun


Hvaða skilaboðum viltu koma til sóðanna?

„Big Bárðar is watching you“ – svarar Einar og skellir upp úr. – Nei, ég hef þá trú að það séu í raun engir sóðar til. Að mestu leyti er þetta klaufaskapur og lélegur frágangur á rusli og sorptunnum og slæleg vinnubrögð á athafnasvæðum, sérstaklega yfir veturinn, sem valda þessu. Sorpið reynir nefnilega með öllum ráðum að sleppa frá þeim sem hugsa illa um það og það er bara skiljanlegt. En allt rusl á rétt á því að vera vistað á viðeigandi stofnun.

Einar byrjaði að plokka árið 2018 þar sem hann las þráð á hverfasíðu þar sem fólk fáraðist yfir rusli á tilteknum stað. Hann áttaði sig þá á því að hann væri fljótari að keyra á staðinn og týna ruslið en að lesa þráðinn, og gerði það. Fréttablaðið/Valli

Hvernig fer stóri plokkdagurinn fram?

Þetta er þriðja árið sem við stöndum fyrir deginum. Vegna sam­komu­banns og óvissutíma vorum við ekki viss hvort hægt væri að boða til hátíðarinnar þetta árið en eftir samráð við Víði Reynis var ákveðið að kýla á þetta.

Í ár viljum við beina plokk­töngum okkar að heilbrigðisstofnunum landsins, sjúkrahúsum, heilsu­gæslustöðvum og dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þannig viljum við sýna þakklæti okkar í verki, enda hefur starfsfólk og stjórnendur þessara heilbrigðisstofnana verið undir miklu álagi.

Svavar Hávarðsson plokk-konungur átti þessa frábæru hugmynd. Hún er fyrst og fremst táknræn. Það er ekki svo að í kringum heilbrigðisstofnanir landsins sé rusl að finna í meiri mæli en annars staðar, en með því að taka þátt í plokki í kringum heilbrigðisstofnanir getum við, fólkið í landinu, látið þakklæti okkar í ljós með þessum táknræna hætti.

Nánast öll sveitarfélög landsins taka þátt og hægt er að nálgast upplýsingar á heimasíðum þeirra og samfélagsmiðlum. Deginum skiptum við upp í tvær plokkvaktir. Sú fyrri byrjar klukkan 10.00 að morgni og sú síðari klukkan 13.00. Öllum er frjálst að taka þátt í hluta skipulagðra aðgerða eða deginum öllum, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar inn á Plokk á Íslandi á Facebook og á samfélagsmiðlum eða heimasíðum sveitarfélaganna.