Gríðarlegur verðmunur er á bifreiðatryggingum hér á landi og í nágrannalöndunum og svo virðist sem munurinn hafi aukist mjög mikið á undanförnum tveimur árum.

Þegar Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gerði samburð á iðgjöldum bifreiðatrygginga hér landi og í höfuðborgum hinna Norðurlandanna fyrir tveimur árum kom í ljós að iðgjöld hér (ábyrgð og kaskó) voru á bilinu 57-97 prósent hærri en í hinum Norðurlöndunum.

FÍB kannaði einnig hvort tryggingarnar væru sambærilegar milli landa og komst að því að svo var, mjög lítill munur á eigináhættu kaskótrygginga og raunar var meiri vernd innifalin í tryggingum á hinum Norðurlöndunum en hér á landi, til dæmis flutningur á verkstæði hvaðan sem er.

Fréttablaðið hefur undir höndum gögn um iðgjöld vegna trygginga á Renault Captur-bifreið í þremur löndum. Ólíkt því sem var í könnun FÍB er ekki verið að bera saman verð hér á landi og í stórborgum annars staðar heldur í smærri byggðarlögum.

Sigurður Þorleifsson býr í Sandgerði og iðgjald fyrir ábyrgðar- og kaskótryggingu á Captur-bifreið hans hjá TM nemur 177.661 krónu á ári. Er hann einnig með aðrar tryggingar þar.

Skyldmenni Sigurðar sem búa í Svíþjóð (nálægt Malmö) og Bretlandi (Englandi) eiga sams konar Renault Captur-bifreiðar. Í Svíþjóð er ársiðgjaldið fyrir sams konar tryggingu 2.811 sænskar krónur, eða sem nemur 38.005 krónum á miðgengi 11. ágúst 2022. Í Bretlandi er ársiðgjaldið 199,79 pund, eða sem nemur 33.205 krónum á miðgengi sama dags. Iðgjöldin hér á landi eru þannig um það bil fimmfalt hærri en í Svíþjóð og Bretlandi.