Bílastæðagjöld á öllum gjaldsvæðum í Reykjavík hækkuðu þann 7. apríl síðastliðinn. Hækkunin var mest á gjaldsvæði eitt, tæp fjögur prósent og fór þá úr 370 krónum fyrir klukkustundina í 385 krónur.

Verð fyrir klukkustundina á gjaldsvæðum tvö og þrjú er nú 200 krónur en var 190 krónur áður. Á gjaldvæði þrjú kosta nú fyrstu tvær klukkustundirnar sem bíl er þar lagt 200 krónur en næstu klukkustundir á eftir kosta 55 krónur hver.

Aukastöðugjald, sem einnig er þekkt sem stöðumælasekt, og lagt er á bifreiðar þar sem ekki hefur verið greitt fyrir afnot gjaldskylds bílastæðis eða ef greitt hefur verið fyrir of skamman tíma, hljóðar upp á 4.500 krónur. Veittur er staðgreiðsluafsláttur innan þriggja daga. Sé sektin ekki greidd innan 14 daga hækkar gjaldið í 6.750 krónur og í 9.000 krónur að 28 dögum liðnum.