Fram að síðasta mánuði var bílasala í Bandaríkjunum nokkru slakari en í fyrra, en gríðargóð sala í síðasta mánuði breytti stöðunni á þann veg að bílasala ársins er einungis 0,6% undir sölunni í fyrra. Sem dæmi setti bæði Honda og Subaru bílasölumet þar vestra í einum mánuði frá upphafi og seldi Honda 174.000 bíla og Subaru 70.000 bíla. Velgengni Subaru í Bandaríkjunum á reyndar fá fordæmi þar sem í þessum mánuði jók Subaru sölu sína frá sama mánuði árið áður 93. mánuðinn í röð, eða í hátt í 8 ár.

Sá bílaframleiðandi sem jók reyndar mest sölu sína frá sama mánuði í fyrra var Mercedes Benz, með 24,9% aukningu. Hjá Honda jókst salan um 17,6% og hjá Porsche um 13,5% og Nissan um 13,2%. Heildarsalan í Bandaríkjunum í mánuðinum jókst um 12,4% frá því í fyrra. Á árinu í heild fram að þessu hefur Subaru náð mestri aukningu, eða um 6,4%. Hjá Porsche hefur aukningin numið 6,2%, hjá Volvo um 4,4% og hjá Hyundai um 4,3%. Mesta minnkun sölu á árinu hjá erlendum bílaframleiðendum hefur verið hjá Mazda um 11,5% og hjá Nissan um 5,9%.