Spáð hafði verið minni bílasölu í Bandaríkjunum í ár en í fyrra, en eftir að sölutölur fyrir fyrstu tvo mánuði ársins voru ljósar hefur fyrri spá um söluna verið breytt frá 16,9 milljón bílum í 17,1. Sala bíla í Bandaríkjunum var einstaklega góð í fyrra og árið áður og voru ýmis teikn á lofti um að í ár myndi um hægjast, en salan virðist enn á góðu flugi. Bandarískir bílaframleiðendur fara áfram halloka fyrir asískum og evrópskum framleiðendum og sífellt minnkar hlutdeild þeirra bandarísku í eigin landi. 

General Motors og Ford sáu bæði 6,9% minnkun sölu í febrúar á meðan Toyota jók söluna um 4,5%. Sala þriðja bandaríska bílaframleiðandans, þ.e. Fiat Chrysler minnkaði þó aðeins um 1% og eins og fyrri daginn er það helst að þakka frábærri sölu Jeep bíla, en sala þeirra jókst um 12% frá fyrra ári. Honda seldi 5% færri bíla en í fyrra og Nissan 4,3% færri, en Subaru 3,8% fleiri. Sala Hyundai féll um 13,1% og Kia um 4,7%. Þýsku framleiðendunum gekk vel í febrúar og Mercedes Benz var 1,9% upp, Volkswagen 6,0% upp, BMW 7,5% upp og Audi 12,0% upp. Japönsku framleiðendunum Mazda (+12,7%) og Mitsubishi (+18,8%) gekk líka einkar vel í þessum nýliðna mánuði.