Munurinn á umsýslugjaldi bílaleiganna vegna sekta leigjenda er rúmlega fimmfaldur milli hins dýrasta og ódýrasta. Umrætt gjald getur verið tekið vegna stöðumælasekta eða vegatolla.

Fréttablaðinu barst ábending um gjaldið eftir að einstaklingur keyrði í gegnum Vaðlaheiðargöngin á bílaleigubíl frá Herz. Viðkomandi var of seinn að greiða gjaldið, sem er 1.500 krónur. Kom þá fljótlega rukkun frá Herz upp á 5.500 krónur, sem sagt umsýslugjald upp á 4.000 krónur.

Samkvæmt óformlegri athugun hjá öðrum bílaleigum er gjaldið afar mismunandi. Hjá bílaleigunni Thrifty, sem er í eigu Brimborgar, er gjaldið helmingi lægra en hjá Herz, það er 2.000 krónur. Hjá Höldi, sem rekur Bílaleigu Akureyrar og Europcar, er gjaldið 750 krónur og hafði þá nýlega verið lækkað úr 1.100 krónum. Allar upphæðirnar eru með virðisaukaskattinum inniföldum, en hann er 24 prósent.

Sigfús B. Sigfússon, forstjóri Hertz, segir að viðskiptavinurinn hafi þann kost að greiða sektir beint til viðkomandi lögaðila án þess að bílaleigan hafi milligöngu. „Ef viðskiptavinur okkar ákveður að greiða ekki beint til viðkomandi lögaðila er gjaldið eða sektin send á okkur og við erum ábyrgir fyrir því hvort okkur tekst að innheimta það hjá viðkomandi viðskiptavini eða ekki,“ segir hann.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, segir töluverða handavinnu á bak við umsýslugjöldin og vöktun. Með aukinni sjálfvirknivæðingu og forritun hafi tekist að minnka það og lækka gjaldið.