Dæmi eru um að bíla­leigan Pro­car hafi rukkað leigu­taka um 7.000 krónur fyrir ferð í gegnum Vaðla­heiðar­göng. Þar sé um að ræða 2.500 króna gjald fyrir ferðina sjálfa en bíla­leigan rukki síðan sjálf 4.500 krónur í um­sýslu­gjald. 

Rukkanirnar hafa verið til um­fjöllunar í hópnum Bak­landi ferða­þjónustunnar á Face­book í dag. Þar er síðan birt mynd af skila­boðum frá bíla­leigunni til ferða­manns um að Pro­car hafi greitt 2.500 krónur fyrir ferðina og lagt áður­nefndar 4.500 krónur á ferða­manninn.

RÚV fjallar um málið og hefur það eftir upp­lýsingum frá Pro­car að rukkunin sé vegna um­stangs sem leggst á bíla­leiguna þegar hún fær reikning frá Vaðla­heiðar­göngum. Þannig þurfi Pro­car að rukka við­skipta­vini sína sér­stak­lega. 

Þess ber að geta að sé upphæðin ekki greidd innan þriggja tíma leggst hún á umráðamann bílsins sem keyrir göngin, sem í mörgum tilfellum eru bílaleigur.

Um hafi verið að ræða 40 til 50 kröfur sem bárust eftir opnun ganganna í desember en unnið sé að því að endur­greiða þeim og ekki ætlunin að rukka um­sýslu­gjald þegar fram líða stundir. 

Þá hefur RÚV eftir Hilmari Gunn­laugs­syni, stjórnar­for­manni ganganna, að á­bendingar hafi borist um að bíla­leigur rukki sér­stakt gjald en hann hafi ekki heyrt minnst á 4.500 krónur í þeim efnum. Það komi ekki á ó­vart að bíla­leigur rukki sér­stakt gjald en unnið sé að fram­tíðar­lausn og ein­földun þegar öku­menn bíla­leigu­bíla eru rukkaðir.