Bílaleigan KK9, sem stendur á bak við Hasso-bílaleigu og hjólbarðaverkstæðið Bílkó, hefur í Héraðsdómi Reykjaness, verið dæmd til að greiða bílaumboðinu Bernhard tæplega 11 milljóna króna skuld.

Forsaga málsins er að í desember 2014 keypti KK9 13 bíla af Bernhard, fyrir samtals um 40 milljónir króna. Hluti kaupverðsins átti að verða greitt með notuðum bílum. um var að ræða sex bíla af gerðinni Ford Escape og eina Hondu Civc. Uppítökuverðið nam tæplega 10,6 milljónum króna.

Ekki fyrr en tveimur og hálfu ári síðar kom í ljós að þessi sjö uppítökubílar höfðu aldrei komið í vörslu Bernhard.

Þá krafðist Bernhard þess að eftirstöðvar skuldarinnar, 10,6 milljónir króna, yrðu greiddar. Því neitaði KK9 og vildi meina að Bernhard hefði sýnt af sér verulegt tómlæti sem leiða ætti til sýknu.

Í dómnum segir hins vegar að KK9 hafi ekki afhent þá bíla sem honum bar, samkvæmt samningunum. Engu breyti þó Bernhard hafi ekki áttað sig á þessu strax. „Óútskýrt er í málinu hvernig á því stóð að bifreiðarnar, sem tilgreindar eru með tegund og skráningarnúmeri á reikningum, voru aldrei afhentar eins og ráð var fyrir gert. Ætla verður að þar sé ekki við stefnanda einn að sakast, enda er aðkoma stefnda nauðsynleg því uppgjöri þar sem það heyrir undir hann að afhenda bifreiðarnar og ganga formlega frá afsali þeirra.“

KK9 var því dæmt til að greiða skuldina, 10,6 milljónir krónur tæpar, auk dráttarvaxta frá 11. júlí 2018.