Framkvæmdastjóri Tékklands bifreiðaskoðunar segir að eigendur, einkum eldri bifreiða, geti lent í stórauknum vandræðum, akstursbanni og auknum kostnaði við að koma bílum sínum í gegnum skoðun, vegna breytinga á reglugerð sem tekur gildi í vor.

Samgöngustofa hefur kynnt reglurnar á vef sínum, en þær taka gildi 1. maí næstkomandi. Dæmi eru um tilslakanir frá núverandi kerfi, sem dæmi lengri frest til endurskoðunar vegna skorts á varahlutum. Birgir Hákonarson, framkvæmdastjóri Tékklands, gagnrýnir hins vegar breytingar á svokallaðri skoðanahandbók, reglurnar verði mjög strangar.

„Við munum sjá miklu fleiri dæmi um endurkomur og miklu fleiri dæmi um akstursbann en verið hefur. Akstursbann er rosalega harkaleg aðgerð,“ segir Birgir. „Við erum líka í sjokki yfir að nú á að dæma bíl í endurskoðun ef vantar númeraljósin,“ bætir hann við.

Dæmi um atriði sem mun leiða til akstursbanns er olíuleki. Ef skoðunarmaður sér dropa falla niður af gírkassa eða vél, ber honum að banna akstur bílsins. Áður féll leki undir endurskoðun. Með akstursbanni er á ábyrgð eiganda að láta draga bíl burt og láta lagfæra ökutæki eða farga því.

„Það er mjög mikið af gömlum bílum til þar sem það er ekkert auðvelt að stoppa olíuleka. Olíuleki hefur ekki áhrif á umferðaröryggi,“ segir Birgir.

Annað dæmi um akstursbann varðar bilaða handbremsu.

„Ef handbremsa er óvirk sem er mjög algengt af því að fólk notar hana ekki, þá verður akstursbann. Við vitum að handbremsan er neyðarhemill, en ég veit engin dæmi þess að bíll verði bæði handbremsu- og fótbremsulaus,“ segir Birgir.

Það er að mörgu að huga í skoðun eldri bíla
Mynd/Fréttablaðið

Reglugerðin er hluti af tilskipun Evrópulanda. Sérhvert land hefur þó svigrúm til að koma með tillögur að breytingum á atriðum sem leiða til akstursbanns. Birgir telur að Samgöngustofa og íslensk stjórnvöld hafi vannýtt að reyna að koma undanþágum í gegn.

Þá gagnrýnir framkvæmdastjóri Tékklands að skoðunarmönnum beri framvegis að tilkynna grunsamlega stöðu akstursmælis til Samgöngustofu. Hann undrast að Samgöngustofa sinni ekki því eftirliti sjálf, enda „dæli skoðunarstöðvar upplýsingum til samgöngustofu“, eins og hann orðar það. Stofnunin ætti sjálf að geta unnið úr þeim upplýsingum.

Birgir segir engan vafa leika á að breytingarnar komi harðast niður á efnaminni bíleigendum, sem eigi gamla bíla sem þarfnist viðhalds.

„Okkur finnst þetta rosalega harkalegt, það geta orðið veruleg vandræði hjá fólki sem missir heimilisbílinn út af einhverri óheppni.“